Upprifjun – 3.júní 2009

Þetta skrifaði ég hjá mér þann 3.júní 2009

Vaknaði í morgun dofin upp að hnjám í fótunum. Er kalt og skrýtin í höfðinu, átti tíma í nálastungum en treysti mér ekki til að fara, var svo rugluð að ég reyndi að nota fjarstýringuna til að hringja og þurfti að horfa lengi á hana til að uppgötva að hún var ekki það sem ég ætlaði að nota til að hringja, fann gemsann minn og hringdi úr honum en skellti svo á því að ég ætlaði að nota heimasímann, fann hann og hringdi. Þetta ferli tók langan tíma. Er með mikinn svima.

Er illt í augunum og hálsinum, finnst eins og að það liggi strengur um mig miðja, er aum í nýrnastað.

Er búin að vera mjög þreytt síðustu tvo sólarhringa og hef sofið út í eitt. Vaknaði dofin í fótum í fyrradag en minna dofin í fótum í gær en þá var ég dofin í vinstri handlegg. Mjög slöpp og máttfarin.

Er illt í kviðarholi, mikið loft í mér.

Hef sofið í mikið af fötum síðustu tvær nætur og sit núna með fæturnar í hitapoka og er í hlýjum fötum en samt er mér skelfilega kalt.

Ég er ekki með neinar kvíðahugsanir, er bara óskaplega þreytt og dofin í hugsun, er lengst inn í móðu eða þoku.

Flökurt og völt á fótunum.

dagurinn líður og mér er alltaf jafn kalt, er með öll einkennin áfram, þreitt en get haldið mér vakandi á hnefanum.

sofnaði smá stund seinni partinn, vaknaði meira dofin í fótunum og mikið loft í maganum og líður verr ef eitthvað er.

——————————————–

Þegar ég var að lesa þetta í dag þá datt mér allt í einu í hug að ég er búin að vera í eftirliti í 10 ár vegna þess að ég fékk krabbamein árið 2000, ég skil ekki afhverju þeir læknar sem hafa verið að rannsaka mig síðustu 4 til 5 árin hafa ekki sett meiri trukk í rannsóknir, mér finnst eiginlega eins og að þeir hafi verið jafn dofnir og ég! Ég var bara að veltast hérna ein heima hjá mér fárveik á meðan þeir voru í óða önn að segja mér að það væri allt í lagi með mig nema að ég væri með þunglyndi og eftir því sem ég veiktist meira og meira þá var þunglyndið skilgreint meira og fór út í að verða MJÖG djúpt, eða svo sagði geðlæknirinn. Hvað varð svo um þetta þunglyndi? Gufaði það bara upp í skítalykt um leið og ég hætti að taka inn geðlyfin?