Ég átti góðan tíma á Spáni fram á næsta vor en þá rann leigan út á litla krúttlega húsinu og ég flaug heim á kuldaskerið. Það var fínt að koma heim með svona góða heilsu en fljótlega fór hún að versna í kuldanum þótt það væri komið fram á sumar. Verkirnir æstu sig upp aftur og ég varð viðþolslaus. Verkjalæknirinn sagði mér að fara aftur út og vera úti, helst að koma aldrei til baka því að það yrði endalaus barningur við verkina. Ég hlýddi og fór aftur út, hef núna búið á nokkrum stöðum en er núna komin HEIM, það er falleg íbúð með litlum einkagarði þar sem ég get haft gróður í garðinum og svo bjargaði ég yndislegri kisu úr afhvarfinu í Torrevieja og saman búum við í næsta bæ við.
Þótt að ég sé hér í hitanum þá eru verkirnir ennþá að plaga mig. Það er svo langt í frá að ég geti lýst því hvernig þeir haga sér en ég vil gjarnan reyna það því að ég verð svo oft vör við ágiskanir fólks og það pirrar mig. Ein sagði við mig „ég stunda líkamsrækt í upphituðum sal en samt er ég líka með taugaverki“
Verkjalæknirinn minn sagði að verkir af þessum toga væru þess eðlis að ég yrði það sem eftir væri að berjast við þunglyndi af og til það sem að ég réði ekkert við það sem væri að gerast í líkamanum. Ég finn stundum fyrir ofboðslegum pirring, það er líklega þunglyndið.
1. Fyrsta myndin er tekin áður en ég fékk rétta greiningu.
2. Önnur myndin er búið að skera krabbameinið burt.
3. þriðja myndin er nýleg.
Verkirnir byrja neðst í iljunum, þar eru brunaverkir eins og einhver haldi á logandi kyndli undir iljunum. Ofan á iljunum og fram á tær er eins og allt sé gaddfrosið. Upp kálfana finn ég bæði logandi verki og frost, mætti kalla það frost og funa. Þetta nær upp í mitti og svo kemur magi og brjóst verkjalaust. Fingur eru eins og tærnar, með logandi tilfinningu upp að olnboga. Andlitið er með frost í kinnum en svo er ég með vinstra megin þrítaugaverki í öllum þremur greinum en þeir koma sjaldan sem betur fer. Ég er líka með brunatilfinningu í tungu og bak við augun finn ég fyrir miklum frostverkjum. Svo fylgir þessu mikill höfuðverkur sem versnar öðru hvoru. Nýlega byrjaði ég að finna fyrir versnandi sjón, ég á tíma hjá augnlækni fljótlega en heilsan almennt er ekki góð eins og sjá má á þessari lýsingu. Ég hef góðan heilsugæslulækni og er í eftirliti en það var löngu búið að útskrifa mig úr eftirliti á Íslandi.
Ég fékk mikla hjálp hjá krabbameinsfélaginu í sambandi við áfallaröskun sem ég hafði verið með frá barnsaldri en eftir þessi veikindi þá versnaði þetta allt hjá og mér tókst ekki að jafna mig og vaknaði oft upp með miklar martraðir á nóttinni. Ég átti ekki orð yfir því hvað ég lagaðist mikið, ég svaf orðið vel og naut mín mjög vel en því miður þá varð ég fyrir áfalli hérna úti sem triggeraði upp allt sem áður var horfið. Það læðist að mér að ég þurfi að gera miklar ráðstafanir en ég reyni að þrauka og sjá til hvort ég nái ekki landi aftur. Það sem hefur alltaf plagað mig mest er að ég treysti engum, ég reikna alltaf með því að fólk vilji mér eitthvað illt. Áfallaröskun er margskonar en hjá mér er þetta mest þannig að ég er hálf hrædd við fólk og held að ég sé í hættu og svo er mikill kvíði en hann hvarf líka í þessari vinnu hjá Krabbameinsfélaginu.
Svo ætla ég að enda á því að segja enn einu sinni, ég er ekki að biðja um vorkunn. Ég hét sjálfri mér því þegar ég fór í gegnum veikindin, ef ég myndi lifa þetta af, að gera tvennt, annað var að ganga berfætt í grænu grasi og hitt var að segja frá öllu sem gerðist og hefur haft áhrif á mig síðan ég byrjaði að veikjast líklega árið 2006. En mér finnst það vera eðlilegt að fólk hafi samkennd með þeim sem ganga í gegnum erfiða tíma, allavega er ég þannig.
Samkennd er það sem skilur á milli eðlilegs einstaklings og siðblindingja.
Þetta er elsku Bessý mín.