Þetta mjakast áfram … ♥

Nú er skollið á 7 daga lyfjafrí í annað sinn og það er talsvert betra núna en síðast því þá var ég með einhverja pest sem bara skemmdi allt fyrir mér. Þessi 7 daga skammtur verður líklega ekki alveg óþægindalaus heldur því í fyrramálið fer ég í smá aðgerð þar sem græddur verður í mig lyfjabrunnur svo það verði auðveldara að koma í mig lyfjunum. Ég verð alsæl þegar þessi brunnur verður kominn á sinn stað, það fær enginn að kvelja mig meira með nálastungum sem betur fer.

Ég er svo ljónheppin að það hafði kona samband við mig hérna einn daginn, við þekktumst ágætlega hérna í eina tíð en systir hennar var besta vinkona mín, hún dó fyrir 18 árum síðan. Við mæltum okkur mót og hún kom til mín og við sátum í marga klukkutíma og rifjuðum upp, við hlógum og grétum og áttum saman yndislegan dag. Hún er mjög almennileg og þegar hún heyrði að ég væri að fara í þessa aðgerð þá bauðst hún til að keyra mig og ná í mig og koma mér heim. Ég er svo þakklát fyrir þetta, ég er með akstursþjónustu en ég kæri mig ekki um að bílstjórinn komi með mér inn og hjálpi mér að hátta mig og koma mér fyrir upp í rúmi og breiði yfir mig, það er heldur ekki í boði.

Ég þarf kynningu á þeirri þjónustu sem er í boði fyrir fólk eins og mig, sem býr eitt, ég þarf stundum meiri aðstoð, t.d. einhvern til að skreppa út í búð fyrir mig á þeim dögum sem ég kemst ekki út. Ég þarf að hringja í “elskulega” félagsráðgjafa bæjarins og fá að vita hvað úrræði hún hefur fyrir mig.