Það er bjart framundan.

Allt er gott sem endar vel, það get ég sagt í dag. Ég hef verið í rannsóknum undanfarið og í dag hitti ég krabbameinslækninn minn og hún sagði mér að allar rannsóknir komu vel út, engin merki um krabbamein lengur. Hún þurfti eiginlega ekki að segja mér þetta, ég finn þetta svo vel sjálf, ég finn að ég er læknuð, mér líður orðið svo vel. Orkan mín er sífellt að aukast og ég nota hana vel, endurhæfingin á Kristnesi mun frestast í vetur á meðan ég er í annarskonar endurhæfingu hérna fyrir sunnan, allt í samráði við lækna og hjúkrunarfólk.

Mér gengur mjög vel að vinna mig út úr reiðinni, ég legg líka mjög mikið upp úr því að ná henni úr mér, ég hef mikla krafta sem ég ætla að nota í allt annað en reiði. Ég fékk að ganga í gegnum þessa reynslu og í dag forgangsraða ég allt öðru vísi en áður, ég met líka fólk og hluti allt öðruvísi en áður, ég er á allt öðrum stað í tilverunni eftir þessa ferð. Ég ber mikla virðingu fyrir líkama mínum og sál, það gerði ég ekki nógu vel áður og ég finn muninn á því hvað mér líður mikið betur með þetta hugarfar. Það er bjart framundan.