Nú hef ég fengið niðurstöður úr síðasta eftirliti v/krabbameinsins og allar niðurstöður komu vel út og lifrin er svipuð og fyrir 6 mánuðum, ég er ánægð og þakklát fyrir þetta.
Mér finnst mjög gott að tala við krabbameinslækninn minn, hún gefur sér alltaf góðan tíma og núna talaði ég um verkina sem ég hef eftir lyfjameðferðina, þeir eru ýmiskonar og hamla mér mikið í daglegu lífi, hún bauð mér að fá ákveðna verkjameðferð undir iljarnar, það myndi hjálpa mér mikið að minnka bara þá verki, mig langar svo að geta hreyft mig eitthvað en lífið mitt snýst um það nú að sitja með fætur uppá borði því þegar ég stíg í fæturnar þá er eins og það séu glerbrot undir iljunum og það er sárt.
Meðferðin er gerð uppá deild, fyrst eru iljarnar deyfðar og svo eru plástrar, með efni sem unnið er úr chili pipar, settir undir iljarnar og hafðir á í ca 2 tíma, þetta á að slökkva á verkjaviðtökum í einhvern tíma ( 3 til 6 mánuði ) og svo er meðferðin endurtekin eftir þörfum.
Hún ætlar að sækja um lyfjakort en svona meðferð er gerð á þriggja til sex mánaða fresti og kostar um 120 þúsund í hvert skipti. Ég á ekki von á að fá neitun um þessa meðferð, ég var talsvert þyngri byrði þegar ég var á öllum óþarfa geðlyfjunum en dýrust voru samt lyfin við drómasýkinni sem ég er ekki með en lyfjaóði geðlæknirinn fékk svo góðan díl fyrir mig hjá Tryggingastofnun að ég þurfti aldrei að borga krónu fyrir þau. Núna þarf ég víst að borga heilmikið vegna verkjanna þótt ég fái lyfjakort.
Næsta reglubundna eftirlit verður í haust og þá fæ ég líka ristilspeglun, hana hef ég fengið einu sinni eftir uppskurðinn og þá voru strax tveir illvígir separ byrjaðir að vaxa og þeir voru teknir. Eins gott að fylgjast vel með en svona separ eru samt lengi að ná því að vaxa upp í sömu stærð og æxlið var orðið svo ég er nú alveg róleg!
Kvíðinn er alltaf að minnka en hann er samt talsvert tengdur verkjum og þreytu. Þunglyndi eða daprar hugsanir eins og lyfjaóði geðlæknirinn talaði um að ég væri með, njah, ég er alveg björt, ég er ekki lengur með krabbamein og svo er ég ekki með alla þessa skrýtnu sjúkdóma sem lyfjaóði og greiningarglaði geðlæknirinn sagði að ég væri með, það munar alveg um þetta