Smá frestun

Í dag hefði ég átt að byrja í fimmtu lyfjalotu en meðferðinni hefur verið frestað á meðan verið er að dæla í mig sýklalyfjum til að drepa niður sýkinguna í þessu litla meini sem var þarna bak við tjöldin að æsa sig. Mér skilst að með því að taka inn sýklalyf þá ætti ofnæmiskerfið að hressast eitthvað og geta ráðist á sýkinguna. Ég finn strax að þetta viðbótarlyf er að virka og ég er að hressast, æ já, þótt ég þrái lyfjalaust líf þá verð ég að viðurkenna að lyfin eru vonandi að bjarga lífi mínu. Stefnan er auðvitað tekin á lyfjalaust líf í framtíðinni.

Núna fæ ég semsagt viðbótarfrí frá lyfjapokunum og krabbameinslyfjunum og næ þá vonandi upp einhverju þreki áður en áfram er haldið.

Hjúkrunarfræðingurinn minn hérna á líknardeildinni hringdi í hjúkrunarfræðinginn sem sér alltaf um mig uppá spítala til að láta vita að læknirinn hérna hefði ákveðið lengra lyfjahlé, spítalahjúkrun vildi vita afhverju þetta hefði verið ákveðið og var sagt að það væri útaf sýktu sári, spítalahjúkrun fannst það einkennileg ástæða en eftir einhverjar nánari spurningar kom í ljós að henni hafði misheyrst, að meðferðinni minni væri seinkað útaf síðu hári…. do´h

==========

Ekkert nöldur í dag, ég finn að ég þarf þessa ró sem umlykur mig núna.

Ég set hér inn texta við lag sem Páll Óskar og Diddú syngja saman en sjálft lagið finn ég ekki á netinu en ég fann annað lag í staðinn sem ég set undir textann.

Með bæninni kemur ljósið

Þegar næðir í mínu hjarta og í huga mér engin ró
og ég þrái að sjá hið bjarta sem að áður í mér bjó
þá er lausnin alltaf nálæg, ef um hana í auðmýkt bið
og með bæninni kemur ljósið og í ljósinu finn ég frið.

Ó, svo dapur er dagur vaknar,dægurþrasið svo fjarri er.
Mundu þegar þú sárast saknar og sólin skín hvergi nærri þér
að í bæn er falinn máttur er þig magnar þúsundfalt
því með bæninni kemur ljósið og í ljósinu lagast allt.

Ég vil mæta þessum degi,fagna öllu sem fyrir ber
og ég bið þess að ég megi njóta alls sem hann gefur mér.
Ef ég bið á hverjum degi, hef ég von sem aldrei deyr
því með bæninni kemur ljósið og í myrkri ég geng ei meir.