Samt átti að útskrifa mig en ég barðist á móti

Á bráðamóttöku fékk ég sömu rannsóknir og áður, tekið blóð og blóðþrýstingur og hjartalínurit og það kom í ljós að ég var mjög lág í blóði og svo þurfti að dæla í mig tveimur pokum af vökva í æð, líkaminn var svo þurr en það dugði ekkert því að ca 5 tímum síðar þá var ég orðin jafn þurr aftur. Samt átti að útskrifa mig en ég barðist á móti því og sagðist vilja láta leggja mig inn einhversstaðar, ég benti á að ég byggi ein og að ég hefði engan til að hugsa um mig eða t.d. hjálpa mér á salerni en ég stóð ekki í fæturnar, það þýddi ekkert fyrir mig að ströggla, ég átti að útskrifast, ég barðist á móti þeim fram á næsta dag, ég var með plastband um úlnliðinn, nafnið mitt var skrifað á það, þegar átti að klippa það af mér þá setti ég hendina aftur fyrir bak og sagðist ekki vera á förum, fyrst þyrfti að finna hvað væri að mér.

Ég hringdi í systur mína og bað hana um ráð, ég gæti ekki farið heim svona á mig komin, hún sagðist skyldi leita ráðlegginga og hringdi svo í mig aftur og sagði að líklega væri best fyrir mig að ljúga mig inn á Vog, þar fengi ég umönnun 24/7, það væri enginn annar staður. Og allt í einu var ég komin aftur heim, veikari en nokkru sinni fyrr en ég átti von á símtali frá bráðamóttöku einhverntíma í næstu viku, þeir ætluðu að panta fyrir mig einhverjar rannsóknir.

========================
Í morgun uppgötvaði ég hvað ég er að braggast vel, ég kom sjálfri mér ánægjulega á óvart, ég setti upp excel töflu sem bar saman mismunandi tölur yfir mismunandi tímabil, ég setti þetta upp í súlurit og skífurit og lék mér að þessu fram og til baka. Ég veit það núna að ég var veik þegar ég fór í Háskóla Reykjavíkur og féll á excelprófinu, ég var nefnilega einu sinni aðalbókari fyrir lífeyrissjóð og notaði excel og kunni á hann eins og að drekka vatn. Ég reiknaði út hlutabréf og skuldabréf og víxla og húsbréf og undirbjó stjórnarfundi með skrautlegum skýrslum og gaf svo út þriggja mánaða stöðu á sjóðnum, þetta var sjóður með um milljarð í eignum. Ég veit það núna að ég átti að geta tekið þetta próf eins og að drekka vatn ….. en ég var veik af geðlyfjaáti og svo var krabbameinið að malla þarna líka!