Raddir í skuggunum

Nú hef ég að mestu sagt alla söguna eins og hún gerðist og þetta verður ekki sagan endalausa, ég vil setja punktinn fljótlega, samt ekki of fljótt. Ástæða þess að ég segi mína sögu hér er að ég vil benda fólki á hversu mikla ábyrgð við berum sjálf á okkar heilsu, líka þegar við fáum læknisaðstoð. Ég hef nú í höndum niðurstöður úr rannsókn sem gerð var í nóv 2009, ég vildi óska að ég hefði beðið um að fá að lesa niðurstöðuna sjálf en ég treysti öðrum betur en sjálfri mér á þeim tíma, það voru mín mistök. Ég hef nú sent fyrirspurn varðandi niðurstöðu úr þessari ísótóparannsókn en fram kemur í niðurstöðu að “mikil geislun sé á ristilsvæði og ristill að sjá óvenju víður” – ég sjálf fékk að vita að ekkert sérstakt hefði komið fram í rannsókninni. Eða eins og ég sagði einhversstaðar fyrr í þessu bloggi, svona attitjúd: Það er ekkert að þér, allt í lagi bless! Ég get bara þakkað sjálfri mér og minni eigin þrautsegju að krabbameinið var uppgötvað ári síðar þegar ég neitaði að fara út af bráðamóttu.

Nú bíð ég eftir svari við fyrirspurninni en samt eiginlega ekki, aðalatriðið í mínum huga var að senda fyrirspurnina frá mér og núna finnst mér miklu vera lokið, ég hef efnt loforð sem ég gaf sjálfri mér. Nú held ég áfram að njóta lífsins sem mér sjálfri tókst að lengja, ég nældi mér í aukatíma

Lilja Sólrún Halldórsdóttir er hér í viðtali um sína reynslu sem hún gaf út í bók sem heitir : Er lítið mein yfirtók líf mitt. Mér fannst gott að hlusta á þetta viðtal við hana Lilju, hún talar um verkina og veikindin og einveruna í veikindunum, hún fór ein í lyfjameðferðirnar og hún viðurkennir að hafa ekki verið auðveld og þurft að gráta mikið. Ég fann fyrir mikilli samhygð að hlusta á hana, ég var nefnilega ekki mikill töffari í mínum veikindum, ég hafði ekki einu sinni skopskyn fyrir þessari stöðu í lífi mínu. En ég segi eins og Lilja að ef ég stæði frammi fyrir því hvort ég ætti að fara aftur í gegnum lyfjameðferð þá myndi ég svo sannarlega gera það.

Mér finnst þetta kynningarmyndband fyrir heimildarmynd um ME: Voices in the Shadows segja að hluta til mína sögu, söguna sem ég hef verið að segja á þess bloggi, veikindasöguna mína.