Óþarfa þjáningar og lygar!

ábending2Ég er löngu komin með upp í kok af lélegum vinnubrögðum í heilbrigðiskerfinu og ennþá er verið að bæta á mig óþarfa þjáningum og lygum!

Eins og ég sagði frá í síðustu bloggfærslu þá byrjuðu verkirnir að versna í byrjun júní, ég hafði samband við deild 11B 5.júní til að láta vita og panta meðferð en kom svo í ljós eftir langa bið yfir Hvítasunnuhelgina að ég þyrfti að bíða til 23.júní eða þar til þessi eini hjúkrunarfræðingur, sem tekur þessar meðferðir, mætir eftir frí. Síðan þá hafa verkirnir náð að æsa sig verulega og ég er orðin viðþolslaus og pirruð eftir því. 11.júní ákvað ég að þetta gæti ekki gengið svona lengur og skrifaði eftirfarandi HÉR inná síðu spítalans :

Ég er að kljást við mikla verki eftir krabbameinslyfjameðferð og hef fengið Qutenza plástrameðferð á deild 11B á ca 8 til 12 vikna fresti en þessi meðferð hefur gagnast mér nokkuð vel, síðasta meðferð var 7.apríl. Nýlega byrjuðu verkir að aukast og hafði ég þá samband við deildina (5.júní) en fékk að vita að hjúkrunarfræðingurinn sem sér um þessa plástrameðferð væri í fríi til 23.júní og enginn gengur í þessi störf í hennar fjarveru. Ég bað um að fá samband við minn krabbameinslækni til að vita hvað ég ætti að gera en þá er hún hætt að vinna á spítalanum.

Ég vil líka vekja athygli á því að ég hef rætt við verkjateymi sem hefur nú verið stofnað á spítalanum og fengið þau svör að þetta teymi er bara fyrir inniliggjandi sjúklinga. Ég tel þetta vera mismunun eða er ætlast til að ég óski eftir innlögn á spítalann svo ég fái aðstoð og meðferð við verkjunum? Spítalinn fékk nýlega fjöldi milljóna í aukafjárveitingu og óska ég eftir að þjónustan við mig verði á þeim nótum sem spítalinn gefur sig út fyrir að veita þ.e. umhyggju, öryggi, framþróun og fagmennsku. Ég sé lítið af því í þessum samskiptum við ykkur þessa dagana.

Það má vel vera að tónninn í þessum skrifum einkennist af ástandi mínu því fer ég fram á það að úr þessu verði bætt strax í dag. Hvert annað get ég leitað?

Matthildur Kristmannsdóttir

——-
Í morgun 12.júní hafði ég ekki fengið svar svo ég sendi þessi sömu orð í email til eftirtaldra aðila:

Margrét Tómasdóttir, talsmaður sjúklinga á LSH
Geir Gunnlaugsson, landlæknir
Lára Scheving Thorsteinsson hjá landlæknisembættinu
Þórunn Sævarsdóttir, deildarstjóri lyflækningasviðs LSH
Davíð O Arnar framkvæmdastjóri lyflækningasviðs LSH

Um hádegi (12:40) fékk ég símtal frá Þórunni Sævarsdóttur, hún sagðist hafa lesið emailið frá mér og bauð mér tíma í meðferð 16.júní, já það er semsagt annar hjúkrunarfræðingur sem kann þessa meðferð. Ég bað um að fá meðferð í dag en nei það var ekki hægt. Ég spurði afhverju ég hefði ekki fengið meðferð fyrr þar sem annar hjúkrunarfræðingur væri til taks, þá sagðist hún hafa tekið því þannig að ég ætlaði að redda mér með verkjalyfjum þar til …. æ úfff ég nenni ekki að skrifa þetta bull eftir henni en hún baðst afsökunar og sagði að það væri greinilegt að það þyrfti að laga þessi mál.

ábending