Ég byrjaði að nota lyfið Modiadal í febrúar sl. Ég man hvað ég var vongóð um að núna væru erfiðleikar mínir á enda, fyrsti dagurinn var bókstaflega æðislegur, ég fór út með myndavélina mína og allt í einu hugsaði ég skýrt og kunni aftur á stillingarnar á myndavélinni en þessi vellíðan stóð líklega ekki lengur en í tvo tíma, ég var heppin að komast heim áður en ég sofnaði undir stýri í bílnum, ég mátti taka 3 – 6 töflur en 6 töflur dugðu ekki til að halda mér vakandi. Eftir nokkra daga hafði ég sambandi við geðlækninn minn og bað um að fá að taka hærri skammt, hann var alltaf með mig á yfir hámarksskammti á einu geðlyfi og ef hærri skammtur af Modiadalinu gæti bjargað mér út úr svefninum og þokunni þá vildi ég fá hærri skammt. Geðlæknirinn samþykkti að ég tæki 8 töflur á dag, ég las mér til á ýmsum stöðum á netinu en fann hvergi að fólk væri að taka svona háa skammta en mér fannst ég engu hafa að tapa lengur, nú var ég bara að spila til að vinna! Næst þegar ég fór til geðlæknisins kvartaði ég yfir að mér finndist þetta lyf ekki standa undir væntingum og þá skrifaði hann uppá amfetamín fyrir mig, sagði að kannski myndi það virka betur á mig en það virkaði ekki baun á mig, ég grjótsvaf í allri minni vanlíðan. Ég hafði meiri trú á Modiadalinu svo ég hætti strax á amfetamíninu, geðlæknirinn hafði áður prufað að gefa mér ritalin til að ath hvort það gæti haldið mér vakandi en það virkaði ekki. Þetta dæmi var dæmt til að mistakast, ég svaf áfram og var jafn veik og geðlæknirinn yppti öxlum og sagðist bara ekkert skilja í þessu.
Í dag var ég að reikna út lyfjakostnaðinn, ekki það sem ég þurfti að borga heldur heildarkostnað við þau lyf sem ég tók inn á þessu tímabili og mánaðarkostnaður við fjögur lyf hefur verið á þessum tíma kr 142.385.- Þetta voru tvö geðlyf og svo betablokkari sem virkaði á migrenið og taugaverkina og svo þetta Modiadal. Ég reiknaði þetta nákvæmlega út, hvað margar pillur á dag x 30 og þetta er útkoman. En svo var ég á fleiri lyfjum, t.d. verkjalyfjum og bólgueyðandi lyfjum en ég tók þau ekki daglega, aðeins eftir þörfum. Hin lyfin voru fastur póstur!
Hvað ætli það kosti samfélagið að vera með svona lyfjaglaða lækna sem hafa ekki hugmynd um hvað þeir eru að gera?