Síðasta bloggfærslan mín átti að vera smá kveðja þar til í haust en núna er ég orðin svo verkjuð og pirruð að ég verð að ausa úr mér hérna!
Í síðustu viku byrjuðu verkir að æsa sig upp aftur svo ég hringdi uppá deild til að biðja um verkjameðferð, ég fékk að vita að hjúkrunarfræðingurinn sem sér um mig væri farinn í frí en myndi hringja í mig eftir helgina. Það var ekkert við því að gera nema bíta á jaxlinn, ég er nú alveg orðin vön því að fá ekki allt sem hugurinn girnist í þessum málum. Helgin var löng og lengi að líða en svo kom þriðjudagur og ég vaknaði fyrir allar aldir, reyndar um miðja nótt og vonaði að ég fengi símtalið snemma og meðferðina helst eftir hádegi. Nei ég fékk ekkert símtal svo ég hringdi í morgun og þá var mér sagt að hjúkrunarfræðingurinn sem sér um mig kæmi ekki úr fríi fyrr en 23.júní, ég spurði hvort ég gæti fengið annan hjúkrunarfræðing, svarið við því var nei, þessi er sú eina sem sér um þessa meðferð. Ég bað um að fá samband við krabbameinslækninn minn, “nei því miður, hún er hætt að starfa hér”.
Jahérna, ég er greinilega ekki heppin kona í þessu heilbrigðiskerfi, jú ég var reyndar mjög heppin að hitta fyrsta krabbameinslækninn minn, hún bjargaði talsvert miklu af því sem aðrir læknar höfðu klúðrað en hún fékk nóg af því að starfa þarna og hætti og þá fékk ég annan lækni sem ég hitti einu sinni og nú er hún hætt líka.
Ég misskildi fréttina á mbl.is í febrúar sl um stofnun verkjateymis á LSH, ég bað strax um að fá símtal frá teyminu en í fréttinni stóð “Það er sérhæfð meðferð fyrir fólk sem þjáist af langvinnum og alvarlegum verkjum sem ekki hefur tekist að vinna á.”
Loksins fékk ég símtalið og fékk að vita að þetta teymi væri bara fyrir inniliggjandi sjúklinga, nei ég gat ekki fengið eitt né neitt en mér var bent á geðlyfið Cymbalta sem gagnast stundum vel við verkjum. Það er marg búið að bjóða mér allskyns geðlyf og morfínlyf og flogaveikilyf og bara allan anskotann í pilluformi en nei takk, ég tek ekki þátt í svona tilraunum lengur og svo hentar það lifrinni minni illa að taka inn lyf. Ég vil bara fá þessa plástra, þeir gagnast mér þokkalega en það þarf einhver að setja þá á mig! Reyndar eru verkirnir á fleiri stöðum en í fótunum en ef ég fæ plástrana undir iljarnar þá get ég gengið.
Það þarf að stórbæta þjónustuna við sjúklinga!