La Vita Belle

núna3

-oOo-

Sumir dagar eru svo góðir,
bara að njóta þess að vera á lífi,
að lifa,
að vera ennþá til,
Njóta samvista með fjölskyldu,
með vinum,
með sjálfri mér.

Lífið er svo dásamlega gott að ég verð að segja upphátt frá því
hvað ég elska það að vera ennþá lifandi.
En ekki dáin á kistubotni.

-oOo-

Núna er viðtal við mig í Stundinni vegna þess málefnis, sem þetta blogg mitt hérna fjallar um, og í dag hitti ég fyrir tilviljun tvær manneskjur sem sögðu mér mjög sorglegar sögur af svipuðum dæmum og ég lenti í. Þetta voru konur sem voru báðar greindar með þunglyndi en voru, eins og ég, með krabbamein og báðar fengu rétta greiningu of seint og báðar eru nú látnar. Báðar gengu á milli lækna árum saman. Ég fæ oft núorðið að heyra um fólk, sem fór of snemma, ég gæti skrifað upp lista, minningarlista um manneskjur sem var hægt að bjarga.

Þessvegna held ég áfram að vekja athygli á mínu máli og ég geri það líka fyrir fólk sem ennþá gengur á milli lækna í leit að réttri greiningu vegna þess að samkvæmt lögum eiga sjúklingar rétt á fullkomnustu heilbrigðisþjónustu sem á hverjum tíma er völ á að veita. Hana fékk ég ekki vegna þess að rannsóknarmöguleikar voru sparaðir. Ég kvartaði um klínísk einkenni en var úrskurðuð þunglynd án rannsókna á einkennunum. Í mínum sjúkraskrám er hægt að lesa allt um þetta, allt saman! En það er með þetta eins og með sjúkdómsgreininguna sjálfa, kerfið flækir hlutina. Það þarf að vanda betur vinnubrögðin.

-oOo-

Ég er sterk núna, ég hef gott fólk í kringum mig, félagið mitt Viljaspor, þar finn ég mikinn stuðning og við erum að gera góða hluti. Það besta er að ég er nógu sterk til að takast á við það sem er að gerast. Það mun enginn þagga niður í mér og ég á eftir að segja svo mikið meira. Ég mun ekki þegja yfir neinu.

„Það sem ekki drepur þig gerir þig sterkari“
– Friedrich Nietzsche