Ég rakst hérna á frétt í Pressunni sem vakti athygli mína.
Neikvætt fólk fer oftast til læknis
Fólk sem er almennt neikvætt og hefur tilhneigingu til að meta hlutina í neikvæðu ljósi, upplifir hluti oft meira ógnandi og fer því oftar til læknis. Almennt fer frískt fólk of oft til læknis og of miklar læknismeðferðir geta ógnað lýðheilsu.
Þetta er skoðun margra heilbrigðisstarfsmanna í Noregi og segir Marie Undheim, hjá háskólanum í Stafangri, að neikvæða fólkið fari oftar til læknis. Hún segir að fólk sem þjáist af þunglyndi fari oftar til læknis en aðrir.
Ef þú ert mjög langt niðri og stressaður þá finnurðu frekar fyrir sjúkdómseinkennum en ef þú væri ekki langt niðri og stressaður. Það hvernig við túlkum sjúkdómana okkar hefur áhrif á hvort við förum til læknis.
Hún bendir á að sjúkdómar séu metnir huglægt af viðkomandi.
Ef við viljum fá heilbrigt fólk til að fara ekki til læknis eða á sjúkrahús verðum við að skoða ástæðurnar sem liggja að baki mati sjúklingsins á sjúkdómnum.
Olav Helge Førde, prófessor í lýðheilsufræðum, segist telja að of miklar læknismeðferðir séu ógn við lýðheilsuna og hvetur til að rannsakað verði hvers vegna of margir heilsuhraustir einstaklingar í Noregi fá læknismeðferð.
Netsíður sem fjalla um heilsu eru í stöðugum vexti en getur hugsast að sókn okkar í þekkingu geri okkur kvíðnari?
Undheim sagðist í samtali við Norska ríkisútvarpið telja að þetta snerist um fólk sem fer aftur og aftur til læknis. Til að draga úr þessum læknisheimsóknum verði læknirinn og sjúklingurinn að ræða vel saman.
Ef læknirinn getur í þessum samtölum miðlað þekkingu sinni og látið sjúklingnum þær upplýsingar í té sem hann þarfnast þá er sjúklingurinn betur í stakk búinn til að meta heilsu sína sjálfur næst.
Hún vill þó ekki ráðleggja fólki að fara ekki til læknis og bendir á að sumir hópar þjóðfélagsins þyrftu að fara oftar. Karlar fari til dæmis sjaldnar til læknis en konur og að blöðruhálskrabbamein og krabbamein í eistum sé ennþá mikið feimnismál.
Við verðum að horfa á þetta af yfirvegun. Ef við segjum við fólk að það eigi að hætta að fara til læknis geta afleiðingarnar orðið alvarlegar fyrir þá sem ættu að fara til læknis en gera það ekki.
XoXoXoXoXoXoXoXoXoXoXoXoXoXoXoXoXoXoXoXoX
Hérna er forvitnileg grein sem er fjallar um það þegar læknar mismuna fólki sem hafa fengið geðgreiningar. Ég fékk mína þunglyndisgreiningu þegar ég var að ganga í gegnum erfitt tímabil og þegar ég byrjaði að finna fyrir líkamlegum veikindum þá var öllu pakkað snyrtilega inn í geðgreininguna án þess að rannsaka til fullnustu hvað gæti verið að valda þessum veikindum. Þetta kostaði mig talsvert mikið, ég hef varanlegar skemmdir á taugakerfi sem valda mér miklum verkjum sem erfitt er að ráða við, ég reyni samt að halda áfram að eiga gott líf og flestir dagar eru góðir þrátt fyrir verkina ef ég held rétt á spilunum. Sumir upplifa mig öskureiða og neikvæða, það er þeirra upplifun á mér, mér hefur tekist að vinna ágætlega úr reiðinni og búa mér aftur til gott líf. Mér dettur í hug maður sem fór með bílinn sinn á verkstæði og lét gera við bilun, verkstæðisvinnan kostaði sitt og maðurinn borgaði og fékk bílinn sinn og komst að því að hann var ennþá bilaður. Aftur fór hann með bílinn á verkstæðið og aftur var gert við hann og aftur þurfti maðurinn að borga stóra summu fyrir viðgerðina. Stuttu síðar fann hann út að ennþá var bíllinn bilaður og þurfti aftur á verkstæðið og þegar honum var sagt hvað hann þyrfti að borga mikið fyrir viðgerðina þá fór nú að síga verulega í skapið hans. -o- Ég held að flestir skilji og geti sett sig inn í reiði sem myndast í sambandi við peningasvindl, það er kannski eitthvað erfiðara að setja sig inn í reiðina sem myndast þegar maður missir heilsuna sína við það að treysta óhæfu fólki sem kallar sig lækna! En ég er sátt og hef fyrirgefið sjálfri mér að geta aldrei fyrirgefið þeim sem vanræktu starfið sitt með þeim afleiðingum að ég sit heilsulaus eftir. Ein manneskja (ekki í heilbrigðiskerfinu) hefur beðið mig fyrirgefningar á framkomu sinni við mig á því tímabili sem ég gekk í gegnum þetta ferli, mér þótti það gott hjá henni og sjálfsagt að fyrirgefa þeim sem biðja um fyrirgefningu. Önnur manneskja sagði við mig að hún væri búin að biðja mig fyrirgefningar .. Ég hafði ekki gott stuðningsnet í kringum mig þegar ég virkilega þurfti að því að halda, það kom mér mjög á óvart að vera svona ein í baráttunni. Rangar sjúkdómsgreiningar, fordómar og fáfræði er erfitt að slást við þegar maður er líka að slást við lífsógnandi sjúkdóm en mér tókst það afþví að ég stóð vel með sjálfri mér og lét ekki segja mér að ég væri NEIKVÆÐ þegar ég var að útskýra veikindi mín fyrir fólki sem vinnur við að hjálpa veiku fólki! Geðlæknirinn greiningargóði sagði mér að ég væri með daprar hugsanir og greindi veikindi mín út frá því og í framhaldi fóru af stað snjóboltáhrif hjá öllum læknum sem ég leitaði til eftir það, sem ég gat ekki stöðvað fyrr en ég neitaði að fara út af bráðamóttöku. Sparnaður sem endaði illa fyrir kerfið, ég lifði af, meira segja þótt ég væri látin bíða í 6 vikur eftir síðustu heimsóknina á bráðamóttökuna þar til þeir fundu tíma til að spegla mig og finna loksins hvað var í rauninni að hrjá mig, blóðprufan mín hafði ekki verið skoðuð þegar ég var send heim þremur dögum fyrr og hún hafði ekki verið skoðuð þegar átti að senda mig heim þennan dag, hún var ekki skoðuð fyrr en eftir að ég neitaði að fara út. Svona vinnubrögð kosta svo mikið meira þegar upp er staðið. Ennþá hefur ekki fallið ryk á flibba þeirra lækna sem komu að mínu máli, ekki mér vitanlega en ég veit að einn læknirinn hefur verið hækkaður talsvert í tign! Það er verið að vinna í málinu mínu hjá Sjúklingatryggingu og núna eru tvö ár síðan ég skrifaði bréf til embættis landlæknis og mér er sagt að verið sé að ath málið.
Ég er alveg sannfærð um það núna að það liggja margir veikir og afskiptalausir einir heima hjá sér, samfélagið er að bregðast í þessum málum og fólk lítur undan þegar þessi mál ber á góma! Mjög sorglegt!!! Ég veit hvernig það er að liggja veik heima hjá mér árum saman, afskiptalaus og dæmd til að lækna mig sjálf með gönguferðum!
Hérna er smá grein sem ég vil láta fylgja með, m.a. hvernig læknar geta unnið betur fyrir sjúklinga sína.