Hinn fullkomni sjúklingur

HÉRNA fann ég fína umfjöllun sem ég vil endilega hafa með í blogginu mínu!
Ekki nema fyrir fullhraust fólk að verða veikt

Fyrir nokkrum árum las ég skemmtilega grein í danska neytendablaðinu sem bar yfirskriftina „Hinn fullkomni sjúklingur“. Þar er fjallað um það hvernig sjúklingar eiga að hegða sér ef þeir ætla að fá lausn sinna mála í heilbrigðiskerfinu. Hegðun sjúklings getur nefnilega skipt öllu máli ef rétt sjúkdómsgreining á að fást. Sjúklingur sem gerir lítið úr verkjum getur gert illt verra og sjúklingur sem ýkir verki á á hættu að fá ranga greiningu eða jafnvel að vera ekki tekinn alvarlega.

Dorte Gannik sem hefur rannsakað samskipti milli lækna og sjúklinga bendir á að það séu raunveruleg dæmi þess að of hógvært eða of frekjulegt framferði geti komið í veg fyrir að sjúklingur fái rétta meðferð. Málið er að sjúklingar þurfa sjálfir að sjá til þess að þeir fái viðeigandi meðferð. Þeir þurfa að vera virkir, ekki of ágengir en heldur ekki ósýnilegir. Sjúklingar þurfa líka, ef vel á að vera, að búa yfir færni í mannlegum samskiptum og hegða sér rétt því læknar geta látið hegðun sjúklingsins leiða sig á villigötur.

Einnig er fjallað um að heimilislæknar séu orðnir töluvert stressaðir vegna þess hvað sjúklingar gera orðið miklar kröfur. Sjúklingarnir vilja sjúkdómsgreiningu og lækningu án vandkvæða enda er umræðan oft á þann veg að læknavísindin geti í dag læknað nær alla mögulega og ómögulega kvilla. Það er stundum talað um að þessar kröfur sjúklinga um hraðvirka lausn eigi sinn þátt í aukinni lyfjaneyslu. Enginn hefur tíma til að vera veikur og læknarnir hálfpartinn neyðast til að skrifa út lyfseðla til að róa sjúklingana.

Sumir sjúklingar hafa lesið heilmikið um það nýjasta í læknavísindunum og búa yfir miklum upplýsingnum, t.d. frá netinu og vita vel hvers læknavísindin eru megnug. Þessir sjúklingar eru þrjóskir og kröfuharðir. Svona sjúklingur getur fengið það í gegn að vera sendur í rannsóknir sem læknirinn veit jafnvel að eru vita gagnslausar. Þessi þrjóski krefjandi alvitri sjúklingur tekur þannig bæði pláss og peninga frá öðrum hógværari og veikari sjúklingum.

Erfiðu sjúklingarnir sem hlaupa á milli lækna með hin ýmsu einkenni hætta á að vera ekki teknir alvarlega þegar að þeir loksins eiga við eitthvað raunverulegt líkamlegt vandamál að stríða. Læknarnir álíta nefnilega viðkomandi sjúkling móðursjúkan.
Niðurstaðan er sem sagt að maður á ekki að vera of frekur og ágengur en heldur ekki of hlédrægur og lítillátur.

Ráð sem vert er að hafa í huga fyrir næstu ferð til læknis

  • Forðastu alla hysteríu og dramatík
  • Forðastu að vera hugrakkur t.d. með því að gera lítið úr verkjum.
  • Forðastu að drekkja mikilvægum upplýsingum í einhverju blaðri, t.d. með því að þylja upp öll hugsanleg einkenni sem þér detta í hug.
  • Forðastu að leita á netinu að sjaldgæfri sjúkdómsgreiningu bara til þess að fræða lækninn þinn
  • Forðastu að leita til fjölda lækna á skömmum tíma til þess að geta síðan valið þá niðurstöðu sem þér líkar best.
  • Forðastu að fara á bráðamóttökuna vegna einkenna sem hafa staðið yfir lengi nema að þér hafi snögglega versnað.

Eins og þið sjáið er margt sem ber að varast og það er vissulega skelfileg tilhugsun að maður geti sent lækninum röng skilaboð vegna þess að maður er of harður af sér eða of vælinn, er ekki skýrmæltur og rökfastur, blaðrar of mikið eða hefur uppi einhverja tilburði sem læknirinn mistúlkar. Krafan um hinn fullkomna sjúkling er vissulega ósanngjörn því þegar maður er veikur og stressaður inni hjá lækninum sem er verulega tímabundin er ekki hægt að ætlast til þess að maður sýni mikla yfirvegun og mæli af snilld. Þetta er kannski spurning um að finna þann fjölskyldumeðlim eða vin sem er færastur í mannlegum samskiptum og taka hann með næst þegar læknirinn þarf að skoða grunsamlegan fæðingarblett eða óþægilegan magaverk.

Brynhildur Pétursdóttir

===========================

Mér finnst svo augljóst núna, eftir alla mína reynslu að best væri að láta sjúklinga krossa við sjúkdómseinkenni á blaði, sjúklingur og læknir ættu að tala sem minnst saman ef greiningin er undir því komin hvort skilningur komist á milli læknis og sjúklings. Geðlæknirinn minn lét mig taka krossapróf mánaðarlega í sjö ár en þau voru um geðheilsu mína, ef hann hefði hlustað betur á mig og átt meltingarfæra- og ofnæmispróf oní skúffu fyrir mig þá hefði ég líklega fengið rétta greiningu mun fyrr. Í mínum huga er það nokkuð ljóst að það var eitthvað athugavert í samskiptum á milli mín og læknanna. Ég reyndi, í mörg ár, að útskýra hvernig mér leið, en hvernig skildu þeir mín orð? Hvað heyrðu þeir mig segja? Ég vissi það svo sannarlega ekki á þessum tíma að ég væri með lyfjaofnæmi og ristilkrabbamein en ég vissi að það var eitthvað mikið að mér og ég margbað um meiri og betri rannsóknir. Ég átti sögu um krabbamein en samt datt engum lækni í hug að tékka á því hvort ég væri komin með þriðja algengasta krabbamein á Íslandi sem er líka önnur algengasta dánarorsök af völdum krabbameina. Hér er um lífshættulegan sjúkdóm að ræða, sem er þó oftast læknanlegur ef hann greinist nógu snemma. Þar skipta þekking fólks og árvekni sköpum. NEI, á bráðamóttöku var ákveðið að horfa frekar á það að ég ætti sögu um þunglyndi og ég var send heim, aftur og aftur. Ég var líka lögð inná geðdeild og mér var sagt að ég væri nú komin með MJÖG DJÚPT þunglyndi, útskrifuð eftir þrjár vikur og send heim, óbreytt ástand, jafn veik og lögð aftur inn á geðdeild og aftur með greininguna MJÖG DJÚPT þunglyndi, útskrifuð eftir fjórar vikur og send heim, óbreytt ástand, jafn veik, öll fyrri einkenni til staðar. Furðuleg vinnubrögð hámenntaðs fólks!

Ein svona reynslusaga eins og mín, er einni sögu of mikið, en ég er búin að heyra sorglegar sögur þar sem fólk deyr vegna svona mistaka, mér liggur við að segja að fólk nái ekki eyrum lækna nema þegar þeim hentar og þannig viljum við, veikt fólk, ekki hafa þessa hluti.