Haltu þér vakandi kona!

Það er erfitt að rifja þessa sögu upp, ég þarf klaufhamar til að spenna upp svera nagla og rjúfa innsiglin og tæta niður köngulóarvefinn, ég grenja mig inn í hólfin þar sem sagan liggur eins og lifandi padda sem lifir og nærist á blóði mínu.

Í Janúar 2008 var ég lögð inn á geðdeild í þriðja sinn þrátt fyrir að ég fullyrti sjálf að veikindi mín hefðu ekkert með geð mitt að gera. Ég get þó skilið geðlækninn minn og geðlækninn á bráðamóttöku að einhverju leiti að hafa talið þessi veikindi mín geðlæg en það er mitt álit að þeir hafi hvorugir sett sig nægilega vel inn í veikindi mín til að geta fullyrt um það. Næst kynni ég til sögunnar geðlækninn á geðdeildinni, hann ætti að fá heilan kafla og kannski tvo kafla í sögunni en ég er að spá í að sneiða talsvert af honum, gefa honum ekki færi á að sitja í sögunni eins og feitur púki. Hann heilsaði mér í fyrsta viðtali og hlustaði á söguna mína, ég var inn í mikilli þoku og mjög málhölt, kom varla frá mér heilli setningu. Svo var ég líka mjög máttlaus og sofnaði allsstaðar sem ég settist niður. Fyrstu dagana taldi ég mig vera á sjúkrahúsi og vildi bara liggja í rúminu og sofa en doksi kom að rúminu mínu og fyrirskipaði að ég ætti að klæðast á morgnana og vaka á daginn og sofa á nóttunni. Ég gerði eins vel og ég gat og klæddi mig á morgnana en ég gat ekki haldið mér vakandi, ég sofnaði jafnvel oní matinn minn og stóð varla undir sjálfri mér. Hjúkrunarkonurnar tóku mig reglulega á teppið og bönnuðu mér að sofa í dagstofunni og þótt ég sé samvinnufús þá hreinlega tókst mér ekki að hlýða þessum fyrirskipunum. Í laumi hugsaði ég um það að ef ég væri með krabbamein hvort þetta sama fólk, læknir og hjúkrunarfræðingar bönnuðu sjúklingunum að vera með krabbamein. Mér var aldrei kennt að halda mér vakandi, ég átti bara að halda mér vakandi.

Eftir að hafa legið ca 10 daga á deildinni þá útskrifaði læknirinn mig yfir í dagsstatus, hann taldi að ég hefði gott af því að vakna upp heima hjá mér á morgnana og þurfa að klæða mig þar og keyra svo uppá sjúkrahús og fara svo aftur heim þegar liði á daginn. Þetta virkaði ekki vel að mínu áliti því að ég sofnaði um leið og ég kom heim á daginn og svaf þar til næsta morgun og svo sofnaði ég undir stýri, bæði í akstri og á rauðu ljósi. Ég reyndi að ræða það við lækninn en hann sagði mér að hafa opna bílrúðuna og sitja upprétt í bílsætinu. Ég hætti að þora að keyra bílinn og fór að taka strætó, fann vagn sem stoppaði á Hlemmi og labbaði þaðan á spítalann, yfirleitt var hálf leiðin nóg fyrir mig, þá var ég oft að spá í að leggjast bara niður á gangstéttina og leyfa mér að líða inn í svefninn eða meðvitundarleysið en með þrjóskunni komst ég alltaf alla leið, mikið helvíti var það oft erfitt samt. Ég kvartaði yfir miklum magaverkjum og þá var mér boðið upp á róandi, ég afþakkaði það og þá flissaði geðlæknirinn og sagði mér að ég réði því sjálf. Já auðvitað réð ég því sjálf og mér fannst ekkert fyndið við það að ég vildi ekki róandi töflur og skildi ekki afhverju hann flissaði. Ég var líka með þennan gígantíska höfuðverk vinstra megin í höfðinu, hann kom snögglega og fór snögglega. Ég reyndi að útskýra einkennin fyrir geðlækninum, fæ tannpínu í allar tennur vinstra megin, fæ eins og ennisholubólgur vinstra megin, fæ verk í vinstra auga og eyra og bara allt vinstra andlitið niður á háls var undirlagt af þessum verkjum. Doksi bauð mér verkjatöflur sem ég þáði. Doksi var samt með eitthvað annað í huga fyrir mig en að tala við mig eins og einhvern sjúkling, einn daginn benti hann mér á að ég þyrfti að fara að spá í hvað ég ætlaði að gera við lífið mitt, hvort ég vildi ekki athuga með að gerast sjálfboðaliði hjá Rauða Krossinum. Það var á þessum tímapunkti sem ég áttaði mig á því að ég og hann vorum ekki að tala sama tungumál. Ég hafði unnið úti frá því að ég var unglingar en þarna var ég búin að vera veik í 4 ár og hann vildi bara gefa mér einhverjar pillur og koma mér í sjálfboðavinnu hjá Rauða Krossinum.

Ég var innskrifuð á þessa deild í þrjár vikur og þá útskrifaði hann mig og ávísaði á mig heimageðhjúkrun. Ég hafði sofið í 10 sólarhringa heima hjá mér þegar hún lét sjá sig og hún sá strax að ég var fárveik og dreif mig strax uppá geðdeild aftur og ég var lögð inn aftur. Það virtist ekki vera nokkur efi í þessu starfsfólki veikindi mín væru á geði. Ég fann að ég var ekki að ná til starfsfólksins og spurði því hvort það væri hægt að komast í tæri við talsmann sjúklinga en ég fékk þau svör að það væri ekkert slíkt þarna. Ég hafði verið að gæla við að ef ég fengi slíkan talsmann að þá gæti ég reynt að útskýra veikindi mín fyrir honum og að hann myndi síðan túlka. Löngu seinna komst ég að því að slíkur talsmaður er á geðdeildinni, ég ræddi við hann og hann benti mér á að það væri miði á korktöflunni þar sem stæði að hann kæmi inn á deildina einu sinni í viku. Það er semsagt reiknað með að allir sjúklingar sem leggjast inn á geðdeild séu í ástandi til að lesa og skilja en sofi ekki bara út í eitt eins og ég gerði.

Geðlæknirinn á geðdeildinni sagði mér í bæði skiptin sem ég lagðist inn, fyrripart ársins 2008, að ég væri ekki með djúpt þunglyndi, ég væri bara með kvíða. Ég var svo hissa á því að þeim bæri ekki saman. En í bæði skiptin sem ég útskrifaðist og fór í næsta tíma til míns geðlæknis þá var komið læknabréf frá sjúkrahúsgeðlækninum þar sem stóð að ég væri með mjög djúpt þunglyndi. Tvisvar sinnum var hann tvísaga, þessu gleymi ég ekki auðveldlega og þurfti ekki að skrifa þetta hjá mér. Margt hef ég skrifað hjá mér á þessum árum, litlar glefsur eins og þessa hérna, þetta er þegar hann er að útskrifa mig út af geðdeildinni í seinna skiptið; Þegar hann var að útskrifa mig þá var hann greinilega ekki að tala við mig því að hann sagði að ég væri nú farin að sofa betur og sérstaklega eftir að ég hætti á Rivotrilinu (róandi lyf) sem ég hef aldrei notað og aldrei verið ávísað á mig, og ég kom þarna inn vegna þess að ég svaf út í eitt.

Mig langar að bæta því við að alveg frá því að ég veiktist svona illa, í nóvember 2007 í ca 18 mánuði þá fylgdi þessum veikindum mikill kuldi, ég hélt ekki á mér hita nema með því að klæða mig í mikið af fötum og helst að vera með mikið af hitapokum í kringum mig. Á kvöldin klæddist ég ótrúlegu magni af fötum og svaf svo með tvær sængur og þar yfir hafði ég teppi. Ég var með ofninn í botni við hliðina á rúminu og lokaðan gluggann, það skipti engu máli hvort það var vetur eða sumar.