Fyrir 10 árum

…… þá var ég líka með óteljandi saumspor í kviðnum eftir stóra aðgerð.

Ég var einstæð móðir, bjó með yngsta syni mínum sem var á þeim tíma ekki barnanna bestur, byrjaður að fikta við fíkniefni og það fór illa með sálarlífið mitt en við áttum samt margar yndislegar stundir sem því miður fækkaði í samræmi við aukinn áhuga hans á fíkniefnunum. Ég starfaði á ferðaskrifskrifstofu og naut þess að flækjast smá og flakka um heiminn. Ég greindist með krabbamein í legi í september árið 2000, ég var skorin upp strax og allt gekk svakalega vel, ég átti að vera heima í nokkrar vikur til að jafna mig og á þeim tíma áttaði ég mig betur og betur á því að ég bjó ein. Það tók sinn toll af mér en heilsan mín flaug upp á við og ég mætti til vinnu sæt og fín í rauðu draktinni á tilsettum tíma. Ég vann í 9 daga og þá fékk ég uppsagnarbréf, við vorum ca 30 manns sem vorum látin fjúka vegna samdráttar. Ég var búin að ráða mig í aðra vinnu viku síðar og byrjuð að vinna þar. Þetta var stórt bílaumboð og ég fékk góða vinnu, þarna leið mér vel og var smá saman að jafna mig á áfallinu sem hafði dunið yfir mig á árinu 2000, að vísu bjó ég ennþá ein og þráði ekkert heitar en að ungur sonur minn kæmi aftur heim í herbergið sitt en það gerðist ekki. Þegar ég hafði unnið þarna í 11 mánuði þá lenti ég í fjöldauppsögn vegna samdráttar og veröldin mín sprakk í þúsund mola og ég varð minni en ekki neitt. Ég var lögð inn á geðdeild og þar var ég í heilan mánuð að púsla mér saman.