Ég hlustaði á ágætt viðtal Arnþrúðar Karlsdóttur, útvarpsstjóra á Útvarpi Sögu við Þórarinn Ingólfsson, formann félags heimilislækna. Hann kemur inná flesta þætti sem brugðust í mínu ferli, hann talar um heilsugæsluna sem framvarðarsveit heilbrigðisþjónustunnar, þar á veikt fólk að hitta vel þjálfaða lækna sem ákveða hvort fólk þarf að fara áfram í “kerfinu”. Eitt og annað í þessu viðtali fékk mig til að staldra við, heyrði ég rétt? Já, þegar ég hlustaði aftur þá heyrði ég rétt.
Þessi framvarðarsveit brást mér, ég hafði sama heimilislækninn í 18 ár og ég segi bara hreint út að hann ætti að fá sér aðra vinnu, ég reyndi líka að tala við tvo aðra lækna innan heilsugæslunnar en þeir brugðust mér líka. Ég hef áður skrifað um þetta á blogginu en þetta útvarpsviðtal kemur betur inná hvernig heildarkerfið virkaði bara alls ekki í mínu tilviki og vísa ég í viðtöl við Atla Thoroddsen sem sagði það sama en hann lét lífið eftir mikla þrautagöngu um kerfið sem vísaði honum sífellt eitthvað annað.
“Allir eiga að fá sömu þjónustu og ef þeir fá það ekki þá er verið að brjóta á fólkinu, reglugerðir eru lög í landinu” segir Þórarinn og viðurkennir þar með að á mér hafi verið brotið.
En þarna var bara framvarðarsveitin að brjóta á mér, svo voru það sjálfstætt starfandi sérfræðingar, krabbameinið sást t.d. á sneiðmynd en sérfræðingurinn sagði að þetta væri nú bara kúkur í ristlinum og gerði ekkert meira í því. En það var krabbameinið sem sást! Og svo allir hinir sérfræðingarnir, sjálfstætt starfandi eða innan spítalans, þvílíkt áhugaleysi sem þeir sýndu mér, fárveikri manneskju.
Svo var það spítalinn sem vísaði mér ítrekað heim með ógreint krabbamein og þótt ég reyndi að segja frá því að ég væri svo veik að ég gæti ekki hugsað um mig sjálf ein heima hjá mér þá átti ég samt að fara heim til mín og þótt ég segði frá því að ég gæti ekki gengið út af bráðamóttökunni og vildi fá hjólastól þá var mér sagt að ég gæti víst gengið.
Núna er ég að berjast við stjórana í þessu “velviljaða” kerfi, sem hjálpar veika fólkinu í landinu því þótt það sé vitað núna að ég gekk fárveik með krabbamein á milli lækna í leit að hjálp í a.m.k. í 45 mánuði þá fást þeir ekki til að viðurkenna að eitthvað hafi verið athugavert við vinnubrögðin eða að eitthvað þurfi að laga til í kerfinu.
Hér er viðtalið sem ég setti inn á youtube svo ég tapaði því ekki: