Fáðu hjálp! Hvar?

Ég þarf að tala svo mikið og ég þarf að segja svo margt en kemst það til skila?

Ég tala við mikið af fólki, margt af þessu fólki er veikt á einhvern hátt, með einhverja sjúkdóma, ég sjálf er með krabbamein og svo er ég líka með gigt og síþreytu.

Á síðstu 10 árum hef ég þurft að fara mjög oft til lækna, oft hef ég verið mjög leið á þessum heimsóknum, oft hefur verið talað við mig eins og að ég sé þroskaheft eða skilji ekki hvað gæti verið hollt og gott fyrir mig. Undanfarið hef ég hitt allt of margt fólk sem hefur sömu sögu að segja, það er talað við veikt fólk eins og að það sé skilningslaust.

Mér finnst læknar fara mjög illa með margra ára lærdóm með því að gagga eins og bilaðar hænur framan í sjúklinga að þeir eigi að drífa sig oftar í gönguferðir. Námið þeirra hlýtur að hafa eitthvað meira fram að færa fyrir veikt fólk en þessi endalausu gönguferðaráð! Við lærðum jú að ganga þegar við vorum börn og gleymum því aldrei, spurning hvort það geti valdið sjúklingum þunglyndi ef læknar gera lítið annað en tuða um gönguferðir.

Ef ég gæti talið, hversu oft, læknar og hjúkrunarfólk ráðlögðu mér að fara í gönguferðir og ef ég væri spurð og ef læknar og hjúkrunarfólk væri spurt, hvort mínar gönguferðir hafi læknað eitthvað? Nei, gönguferðirnar læknuðu ekki neitt. Gönguferðirnar gerðu bara ekki neitt fyrir mig, ég hélt bara áfram að veikjast meira og meira á meðan læknar og hjúkrunarfólk héldu áfram að tuða um gönguferðir! Mig langar til að vita hvort læknar og annað heilbrigðisfólk telur að það sé að gagnast veiku fólki mikið með þessum gönguferðaráðum sínum?

Ég tel að geðlæknirinn minn og heimilislæknirinn og heimahjúkrun hefðu getað nýtt námið sitt mun betur mér til einhvers gagns og ég veit að það eru margir sem taka undir þetta hjá mér! Ég kann að ganga og veit að það er gott að ganga og ég þarf ekki að fara til læknis til að fá að vita það!

Ég var mikill göngugarpur í eina tíð en svo hætti ég að ganga og ég gat ekki skilið afhverju ég gat ekki lengur gengið en það þýddi ekkert að ræða það við lækna, ég átti bara að vera dugleg að ganga, mér var aldrei sagt hvernig ég átti að fara að því, stundum hafði ég ekki orku til að fara út í búð til að kaupa mér í matinn, hvernig átti ég þá að fara í gönguferðir? Læknirinn minn vissi að stundum sat ég svöng heima hjá mér.

Stundum er svo sárt að hugsa til baka en ég þarf að gera það, ég er að moka þessu út.

Fáðu hjálp: ………….. hvar? …. fara til læknis og fá svona gönguráð?