Er gott að bera tilfinningar sínar á torg?

Ég tel að það sé verra að fela sjálfan sig bak við skáp en svo er fínt að hver ákveði fyrir sig hvað kemur honum best.

Fyrir þremur árum skrifaði blogg á mbl.is en lét lítinn kall hrekja mig í burtu þegar hann spurði mig hvort ég gæti aldrei skrifað um neitt annað en eitthvað veikindavæl. Ég var vissulega veik og var dálítið stressuð vegna þess að ég var ósátt við aðferðir læknanna. Ég þurfti að tjá mig um þetta og langaði að nota þennan miðil, að blogga.

Núna er ég meira veik og hrikalega ósátt við aðferðir læknanna sem hafa meðhöndlað mig síðustu ár, ég er líka mjög ósátt við bráðamóttöku Landsspítalans en þaðan hefur mér verið hent út dauðveikri oftar en einu sinni. Í síðasta skiptið sem þeir ætluðu að útskrifa mig (henda mér út) þá neitaði ég að fara og ég setti hendina með sjúkrahúsplastbandinu aftur fyrir bak þegar átti að klippa það af mér.

Ég sit hér núna með óteljandi saumspor í kviðnum og í dag hringdi skurðlæknirinn og sagði mér að krabbameinsæxlið hefði náðst en ég er með meinvörp og þarf lyfjameðferð.

Ég var greind með þunglyndi og geðlæknirinn skaffaði mér mikið af þunglyndislyfjum. Þegar ég kvartaði yfir magaverkjum þá vildi hann skaffa mér kvíðastillandi. “Þetta byrjar jú allt með döprum hugsunum Matthildur”

Byrjar krabbamein með döprum hugsunum? Afhverju eru svona margir greindir með þunglyndi á Íslandi? Afhverju eiga Íslendingar met í geðlyfjaáti? Ég át geðlyf fyrir FÚLGUR FJÁR! Ég er komin með útskrift úr apótekinu og veit upp á krónu hvað ég kostaði samfélagið. Þegar ég spurði geðlækninn og heimilislækninn hvort ég ætti ekki að gera tilraun til að minnka eða hætta á þessum geðlyfjum, NEI, ÞÚ HREYFIR EKKI VIÐ LYFJUNUM MATTHILDUR! En ég gerði það, ég hætti á þeim öllum og hvað, varð ég þá ekki fárveik af geðveiki? Nei, ég hresstist öll.