Mér líkaði mjög vel við nýja geðlækninn, góðlegur og rólegur maður sem kinkaði kolli á réttum stöðum og svo lét hann mig taka próf í hvert skipti sem við hittumst, þunglyndispróf. Ég var mjög mismunandi djúpt þunglynd og stundum var ég upplynd, hann hafði nefnilega fundið það út að ég var með ekki bara með þunglyndi, ég var líka með geðhvörf sem þýðir það að ef ég var ekki “niðri” þá var ég “uppi” og það er líka sjúkdómur. Það er svo einkennilegt að eftir að ég greindist með þessi geðhvörf þá áttaði ég mig á því að svo margir í kringum mig voru með þessar sömu greiningar og ég. Ég var líka kvíðin og átti mjög erfitt með að sofna á kvöldin, ég fékk svefntöflur og stundum skaffaði hann mér líka róandi töflur til að nota á daginn en það hentaði mér ekki, ég notaði því stundum þessar dagtöflur sem extra viðbót fyrir nóttina, gott að skutlast inn í svefninn á dúndurhraða. Ég vissi samt að þetta var ekki viturlegt og hætti að nota þessar viðbótarpillur fyrir nóttina og loks hætti ég að nota svefnpillurnar líka, ég var hálf hrædd við hvað mér fannst þetta auðveld lausn svo ég bara losaði mig við allar þessar næturpillur. Ég varð að halda áfram að taka inn dagpillurnar, ég var með sjúkdóma sem varð að halda niðri með þessum dagpillum, ég tók mín lyf inn samviskusamlega eftir morgunmat á hverjum degi.
Á þessum árum, frá sept 2003 til dagsins í dag, hef ég litið svo á að ég væri að endurhæfa mig aftur út í atvinnulífið. Ég hef tvisvar sinnum fengið að fara inná Reykjalund og þá á geðsvið, fyrra skiptið var fyrirfram dæmt til að mistakast þar sem ég var svo nýlega komin út úr þeim aðstæðum að missa svo mikið. Ég var hálfgerð taugahrúga og skalf af hræðslu við allt og alla. Það hefur líklega verið árið 2005 að ég bað geðlækninn um að sækja um endurhæfingu fyrir mig á heilsuhælinu í Hveragerði og þar komst ég inn um sumarið, það gerði mér alveg ótrúlega mikið gott að stunda prógrammið þar, ég var svo hrifin af því hvað mér leið vel að ég ákvað fljótlega að sækja um tvær umframvikur en þetta var allt í mínum höndum og borgaði ég fyrir þessa dvöl að öllu leiti sjálf. Þegar langt var liðið á þessar 6 vikur þá var ég orðin svo örugg með sjálfa mig að ég sótti um eina önn í Háskóla Reykjavíkur til að ná mér í smá aukagráðu til að létta mér róðurinn útá vinnumarkaðinn aftur. Ég útskrifaðist úr Hveragerði seinni partinn í ágúst og var fljótlega byrjuð í skólanum og allt lék í lyndi, mikið var ég ánægð með sjálfa mig og að lífið mitt ætlaði nú loksins að rata aftur í þann farveg sem mér líkaði.
En það var eitthvað sem var ekki í lagi hjá mér …… ég vissi það ekki þá en ég veit það núna hvað það var og er!
Seinna skiptið sem ég fékk að fara inn á Reykjalund þá svaf ég mest allan tímann, 4 vikur. Ég var á geðsviði en það er líklega ekki auðvelt að draga fárveikann krabbameinssjúkling í hörkugöngur og sund og púl til að ná upp geðheilsunni, það er mitt álit að þarna hafi verið afar illa staðið að málum í alla staði.
==========
Um leið og ég skrifa þetta þá flýgur inn um huga minn að ég var sjálf alla tíð minn besti ráðgjafi en ég treysti alltaf lækninum betur fyrir sjálfri mér. Mikið sé ég eftir þessum tíma sem ég lá hér og svaf nánast allan sólarhringinn og hélt að ég væri þunglyndissjúklingur!