Í morgun byrjaði ég í endurhæfingu á Grensásdeild. Mér líst mjög vel á mig þar. Ég fór eiginlega niður á botn í vonleysi á föstudagskvöldið eftir útskriftina af líknardeildinni, auðvitað átti ég að vera glöð en eftir allt sem á undan er gengið þá finnst mér erfitt að vera hérna ein heima.
Ég var ekki velkomin inn í heilbrigðiskerfið þegar ég þurfti svo mikið á því að halda, læknar voru bæði áhugalausir og fordómafullir og bráðamóttaka líka, svo fann ég allar þessar umvefjandi hendur inn á líknardeild og það gerði svo mikið fyrir mig að ég átti erfitt með að koma aftur heim en núna hef ég tekið stórt skref í rétta átt. Endurhæfing, það felst mikil von í því orði, skref fyrir skref, lítil skref, eitt í einu, ég veit alveg hvert ég stefni, lífið bíður mín og ég ætla að njóta þess, alveg jafn ákveðin í því og ég var áður, þakklát fyrir hvern dag.
Mér finnst ég vera að koma upp úr djúpi og ég finn dásamlegar tilfinningar …… ég er ekki bara uppfull af reiði og pirring yfir því sem á mér dundi, ég finn að ég er að komast til baka, aftur inn í lífið mitt, sem ég saknaði svo mikið, og ég hitti sjálfa mig, konuna sem ég saknaði svo mikið, ég er svo þakklát.