Einstakir læknar

Beint framhald frá síðasta bloggi:

Næst þegar ég mætti í tíma hjá geðlækninum mínum þá spurði ég hann mjög vel út í þessa drómasýki, t.d. hvort ég mætti keyra með þennan sjúkdóm, hann sagði mér að ég ætti að fara varlega en að sumir gæfust upp á að vera í umferðinni. Hann sagði mér frá dómsmáli þar sem skipstjóri hafði ollið einhverju tjóni og hann var greindur með þennan sjúkdóm, ég var búin að finna þennan dóm á netinu og vissi því um hvað hann var að tala um. En í mínum huga snérist þetta ekki um hvor ætti réttinn, þetta snérist um það hvort ég gæti lifað við það ef ég myndi skaða aðra í umferðinni vitandi það að ég væri veik undir stýri.

Enn einu sinni fann ég að við töluðum ekki sama tungumál. Ég spurði hann hvort það væri erfitt að skilja mig, hvort ég talaði eitthvað óskýrt, nei, alls ekki svaraði hann. Ég spurði afhverju það hefði tekið svona langan tíma að greina þessa drómasýki hjá mér, samkvæmt því sem ég hafði lesið að þá er þetta oftast meðfæddur sjúkdómur eða kemur upp á yngri árum og er ólæknandi. Hann sagði að ég hefði smá saman verið að sýna einkenni sem bentu eindregið til drómasýki og nú væri það augljóst að ég væri líka með máttleysisköst sem stundum fylgja. Ég vildi vita afhverju sjúkrahúsgeðlæknirinn hefði ekki komið auga á þetta hjá mér, hann er jú sá læknir sem sér um að greina fólk með þennan sjúkdóm hér á landi og heldur utan um þennan sjúklingahóp. Minn geðlæknir yppti öxlum við þessari spurningu, hann hafði ekkert svar. …..

En svo ég klári þetta drómasýkiskjaftæði þá hélt ég áfram að taka inn þessi rándýru lyf með engum árangri og reyndi að trúa því að ég væri með þessa drómasýki og allt hitt. Seinna, þegar ég var hætt á öllum lyfjum og öll einkenni drómasýkinnar voru horfin þá spurði ég minn geðlækni hvort ég þyrfti ekki að fá pottþétta greiningu á þessum ólæknandi veikindum, ég var búin að lesa um það hvernig þessi drómasýki er greind og hún er greind í viðamikilli svefnrannsókn, geðlæknirinn minn sagði mér þá að sjúkrahúsgeðlæknirinn (sem sér um allar greiningar á þessum sjúkdómi) hefði látið loka þessari svefnrannsóknarstofu fyrir löngu síðan vegna þess að hann gæti greint þennan sjúkdóm með því að horfa í augun á fólki og tala við það.

Þetta er líklega einsdæmi í heiminum á því hvernig læknir greinir þennan alvarlega sjúkdóm og reyndar finnst mér, að þeir báðir, geðlæknirinn minn og sjúkrahúsgeðlæknirinn, ættu að fá geðgreiningu, já mér finnst það eftir að hafa upplifað þetta! En hver tekur mark á mér, það er ég sem er með geðgreiningu frá þeim, það finnst mér hrollvekjandi staðreynd en það er minn vilji að allar þeirra greiningar verða afmáðar úr mínum sjúkraskýrslum! Ég hlýt að hafa eitthvað með þetta að segja sjálf, ég er hinu megin við borðið í þessu máli, ég hef eitthvað um þetta allt saman að segja? Það eru líka til lög um heilbrigðisþjónust og lög um landlækni og sjúklingalög. Ég læt ekki drulla svona yfir mig án þess að fá allavega almennilega útskýringu á þessu! Minn tími er jafn dýrmætur og annarra.

==============================
Ég byrjaði í krabbameinslyfjameðferðinni í gær, ég fékkt auðvitað vægt kvíðakast þegar ég var komin inn í þessar aðstæður en þá kom sálfræðingurinn minn og ég get svo svarið það að hún gerði kraftaverk, ómetanlegur stuðningur að fá hana í smá spjall, við töluðum um væmnar jólamyndir og hlógum okkur máttlausar af bestu og fyndnustu jólamynd allra tíma. Aukaverkanir byrjuðu strax að koma en nú er komin sólarhringur og ég finn að ég ræð við þetta, það er erfitt að stinga hendinni inn í ísskáp, það er svo fjandi kalt þar inni og svo ákvað ég að stökkva út í apótek og kaupa mér hvíta hanska til að hafa við ísskápinn, rosa mistök hjá mér að fara út í kalt rokið, svipað gáfulegt og að troða sér bara allri inn í ísskápinn. En ég læri þetta nú sjálfsagt áður en þessu líkur, 1. skipi af 8. og þetta verður fljótt að líða. Á síðustu þremur árum er þessi tími núna mjög auðveldur miðað við þegar ég sá ekki út úr þessu öllu saman, loksins núna sé ég fyrir endann á þessu.

Ég var búin að plana ferð til Svíþjóðar þann 30.desember, ég ætlaði að fljúga til Stokkhólms og heimsækja elsku vini mína sem búa í háskólabænum Uppsala, ég planaði þessa ferð í október, elsti sonur minn gaf mér ferðastyrk svo ég gæti látið þennan draum rætast. Í gær fékk ég miðann endurgreiddan og núna er ég byrjuð að plana ferðina upp á nýtt, þetta verður sumarferð í staðinn fyrir vetrarferð. Ég sé okkur vinkonurnar í anda næsta sumar, ég eiginlega sé ekkert annað en þessa fallegu mynd, okkur tvær í stuttbuxum og strigaskóm næsta sumar. Jú og kallinn hennar gægist inn í myndina og hundurinn og þá er myndin fullkomin

Þetta var tekið upp í Stokkhólmi árið 1969 … *Summertime* …