Sjúkratryggingar hafa nú úrskurðað í mínu máli, allt ferlið er sagt hafa verið eðlilegt. Ég fékk afrit af gögnum, útprentun úr sögukerfi heilsugæslunnar og útprentun úr sögukerfi LSH, ekki er ennþá komin nein niðurstaða vegna þeirra sérfræðinga sem ég leitaði til en lögfræðingurinn sendi erindi mitt til tryggingafélaga sem þeir tryggja sig hjá.
Ég er talin hafa að baki flókna sjúkrasögu sem er samspil líkamlegra og andlegra þátta.
-oOo-
Ég ætla í örstuttu máli að segja alla sjúkrasöguna mína til glöggvunar. Aðeins neðar er hin raunverulega örstutta útgáfa en fyrst aðeins ítarlegri útgáfan
Árið 2000 greindist ég með leghálskrabbamein, var skorin upp og leg og eggjastokkar var fjarlægt, aðgerðin gekk vel og ekki þörf á lyfjameðferð. Var fljót að jafna mig og mætt aftur til vinnu 6 vikum eftir aðgerð. Hefði svo sem ekki þurft að mæta aftur því ég vann ekki nema í 9 daga og var þá sagt upp ásamt 30 öðrum vegna samdráttar og var látin hætta strax. Var fjót að finna aðra vinnu og byrjuð að finna viku síðar en eftir 11 mánuði lenti ég aftur í hópuppsögn vegna samdráttar og þá fór geðheilsan eitthvað á hliðina og ég leitaði mér hjálpar á bráðamóttöku geðdeildar, var lögð inn og sett á geðlyf og útskrifuð eftir fjórar vikur. Komst inná Reykjalund og var þar í 6 vikur og var svo í reglulegum viðtölum hjá geðlækni. Eftir að hafa verið hjá honum líklega í þrjú ár þá var ég farin að efast um þunglyndisgreininguna en ég var alltaf mjög þreytt svo ég vissi svo sem ekkert hvað var að gerast með mig. Ég leitaði stundum ráða hjá heimilislækninum mínum en hann tók undir sjúkdómsgreiningu geðlæknisins.
Ég var í reglulegu eftirliti vegna krabbameinsins og get lesið það núna í sögukerfi LSH að ég hef jafnað mig fljótt og vel og læknirinn talar um að hann sleppi mér við blóðprufur þar sem allt líti svo vel út.
Árið 2002 fékk ég mikla verki í kvið og leitaði nokkrum sinnum á bráðamóttöku, þetta stóð yfir í nokkra mánuði og svo var ég greind á læknavakt með gallsteinakast, var send í ómskoðun þar sem sjúkdómsgreiningin var staðfest og ég fékk aðgerð þar sem gallblaðran var tekin. Jafnaði mig fljótt og vel og engin eftirköst.
Mér var umhugað um að halda áfram með lífið mitt og réði mig í vinnu þrátt fyrir máttleysi og endalausa þreytu sem ég vissi ekki afhverju stafaði en greiningin var þunglyndi, það gat svo sem alveg verið þar sem ég hafði gengið í gegnum erfiðleika sem tóku mjög á mig. Eftir ca eitt ár í þeirri vinnu (sept 2003) gat ég ekki staðið á því lengur að ég væri frískur vinnukraftur og ræddi það við heimilislækninn minn sem studdi mig í að hætta í vinnu og sótti um endurhæfingarlífeyri fyrir mig.
Ég var endalaust að efast um sjúkdómsgreiningu geðlæknisins og það fór svo að ég hætti hjá honum og fann annan sem staðfesti þunglyndis sjúkdómsgreininguna og eftir því sem árin liðu þá bætti hann ýmsum öðrum sjúkdómum við og sífellt urðu lyfjamálin skrautlegri og ég veiktist meir og meir og varð loks nánast alveg rúmliggjandi og ósjálfbjarga heima hjá mér.
Ég efaðist líka um sjúkdómsgreiningu þessa geðlæknis og ákvað að sannreyna að ég gæti hrist þetta af mér, ég var ákveðin í að komast aftur út á vinnumarkaðinn. Ég fékk endurhæfingardvöl í 6 vikur á Heilsustofnun í Hveragerði árið 2005 og strax eftir þá dvöl tók ég eina önn í Háskólanum í Reykjavík, í mínum huga var þetta góður stökkpallur. En eitthvað var ekki í lagi, ég fann það.
Á árinu 2006 var ég farin að finna til kviðverkja og fékk magalyf hjá geðlækninum en hann sagði að þetta væri líklega kvíði. Í janúar 2007 ræddi ég betur um þessa kviðverki við geðlækninn og sagðist vilja láta rannsaka hvað væri að gerast því ég taldi þetta ekki tengjast kvíða. Hann kom mér í magaspeglun en ekkert kom úr úr henni. Á þessum tímapunkti hefði eitthvað átt að gerast, annaðhvort hefði meltingasérfræðingur átt að panta ristilspeglun til að ganga almennilega úr skugga um hvað væri að valda þessum verkjum eða að geðlæknirinn hefði átt að halda áfram með það sem hann var byrjaður á, að láta rannsaka mig betur, það hljóta að vera eðlileg vinnubrögð að ganga almennilega úr skugga um hvað sé að valda miklum verkjum. Eru einhverjir verkferlar sem farið er eftir eða er bara slumpað á þetta? Ég næ ekki uppí það að þetta sé talið eðlilegt!
Eftir þessa magaspeglun gekk ég á milli lækna alveg fullviss um að það væri eitthvað annað að mér en þunglyndi og kvíði. Ég fór í ýmsar rannsóknir og sagði skýrt og greinilega frá einkennum, ég var send í myndatöku haustið 2009 þar sem sást mikil geislavirkni á ristilsvæði og ristill að sjá óvenju víður en það var ekki nóg eða kannski var það of flókið til að einhver tæki við sér.
Ég fór þrisvar sinnum með sjúkrabíl á bráðamóttöku á árinu 2010, í mars lá ég ósjálfbjarga fyrir utan matvöruverslun, hringt var á sjúkrabíl og ég sagði frá því uppá bráðamóttöku að geðlæknirinn væri nýbúinn að greina mig með NARCOLEPSIU og CATAPLEXIU, já það má segja að ég væri kannski með flókna sjúkrasögu ef ég væri með alla sjúkdómana sem geðlæknirinn klíndi á mig en ég er bara ekki með þá! Ég var auðvitað send heim af bráðamóttökunni og sagt að ræða þetta betur við geðlækninn. Ég tók orðið mikið af lyfjum og var orðin mjög óróleg yfir því, ræddi nokkrum sinnum við heimilislækninn minn um áhyggjur mínar yfir öllum þessum lyfjum en hann sagði mér að halda áfram með þá lyfjaskammta sem geðlæknirinn skammtaði mér. Ég var komin á rándýr lyf við þessum nýja sjúkdóm, lyf sem kostuðu þá yfir hundrað þúsund mánaðarskammtur, þau dugðu ekki en samt átti ég að halda áfram að taka þau. Ég var líka sett á amfetamín, enn ein tilraunin til að ná tökum á þessum nýja sjúkdóm sem ég var ekki með.
Í júlí 2010 ákvað ég að gera tilraun, égg byrjaði að trappa mig útaf öllum lyfjum og hresstist mikið, ýmis einkenni hurfu. Geðlæknirinn vissi ekki hvað ég var að bauka og enn eitt lyfjaskýrteinið datt inn um póstlúguna mína alveg án þess að við værum eitthvað búin að ræða að ég ætti að fara á fleiri geðlyf. Ég veit það núna að öll þessi lyf hjálpuðu mér ekki neitt en gerðu ástand mitt verra en ég áttaði mig ekki á því fyrr en ég var búin að trappa mig útaf þeim og fann muninn á sjálfri mér.
2.september 2010 hitti ég geðlækninn og þann dag fór ég líka með sjúkrabíl á bráðamóttökuna og aftur með sjúkrabíl á bráðamóttöku 7.september. Þann dag barðist ég fyrir lífi mínu og bjargaði því þegar ég neitaði að láta senda mig heim enn einu sinni. Fékk magaspeglun en ekkert kom út úr henni OG ÞÁ VAR PÖNTUÐ RISTILSPEGLUN og krabbameinið kom í ljós. Þetta er það sem hefði átt að gerast í FEBRÚAR 2007 þegar ekkert fannst í magaspegluninni en læknarnir ákváðu að þetta væru kvíðaverkir og rannsökuðu mig ekki til fulls og þessvegna gekk ég með vaxandi krabbameinið í 45 mánuði til viðbótar! Þetta telur Sjúkratrygging að sé eðlilegt ferli!
Ég var skorin 15 nóvember og lyfjameðferðin stóð yfir í hálft ár. Ég varð mjög veik í lyfjameðferðinni og var lögð inná líknardeild í einkennameðferð. Ég brotnaði í þúsund mola og tvær síðustu lyfjainnhellingarnar fékk ég inniliggjandi á geðdeild þá búin að missa alla lífslöngun. Eftir allt þetta sit ég uppi með mikla verki 24/7/365 í skemmdum taugum og draumurinn um að komast aftur út á vinnumarkaðinn orðinn frekar óraunverulegur.
—-oOo—-
Flókin sjúkrasaga? Já það stendur í bréfinu frá Sjúkratryggingum!
Eðlilegt ferli? Já það stendur líka í bréfinu frá Sjúkratryggingum!
—-oOo—-
Já ég ætlaði víst að segja sjúkrasöguna í örfáum orðum og hér kemur hún :
Ég fékk krabbamein árið 2000 og fékk meðferð við því, jafnaði mig fljótt og vel
Ég fékk gallsteinakast árið 2002 og fékk meðferð við því, jafnaði mig fljótt og vel
Ég fékk áfall eftir erfiðleika og byrjaði í meðferð hjá geðlækni árið 2002
Ég kvartaði yfir magaverk árið 2006 …… ÞAR BYRJA MÁLIN AÐ FLÆKJAST og krabbameinið kemur svo í ljós í oktober 2010
Flókin sjúkrasaga eða er kerfið að flækja eitthvað?
Ef ég geng inn um rangar dyr í heilbrigðiskerfinu er þá einhver þar inni sem vísar mér á réttar dyr eða hvað gerist? Er einhver fyrir innan dyrnar sem byrjar að flækja málin?
Ég var greind með fjölmarga sjúkdóma sem ég er ekki með og hef aldrei verið með, eru þær greiningar kannski að flækja málin?
Það er fróðlegt að lesa sjúkraskýrslunar mínar sem ég fékk hjá lögfræðingnum,
EKKI BRÁÐVEIKINDALEG, KVIÐUR MJÚKUR OG EYMSLALAUS – ótrúlega oft skrifað en ég veit alveg sjálf hvað ég var veik og skrýtið að lesa þetta núna og fá að vita að þessi orð eru talin eðlileg þegar vitað er núna að ég var allan tíman með krabbamein! Já svo ég rifji það upp að þá var mér sagt að krabbameinið hefði allavega verið 10 ár að vaxa í ristlinum!
ÞREYTULEG AÐ SJÁ OG BER SIG MJÖG ILLA. Á MJÖG ERFITT MEÐ AÐ GREINA FRÁ EINKENNUM SÍNUM. Ekki þörf á frekari rannsóknum hér á SBD – útskrifuð! – – krabbameinið var svo uppgötvað þegar ég var ristilspegluð 6 vikum eftir að þessi orð voru skrifuð og í gær var mér sagt að allt þetta ferli hafi verið eðlilegt. Það finnst mér ekki vera eðlilegt!
HVAÐ DEYJA MARGIR EFTIR SVONA SKOÐUN Á SBD? OG ER ÞAÐ LÍKA TALIÐ EÐLILEGT?
Telur samfélagið það eðlilegt að farið sé svona með heilsu fólks?
Ég þarf að skrifa svo mikið meira en þetta er nóg í dag!