Dauðans alvara!

TÍMINNÞað er orðið langt síðan að ég hef skrifað hér, ég hef verið upptekin við að byggja mig upp og betrumbæta, batnandi konu er best að lifa og lífið er svo dýrmætt og ég vil grípa hvern einast dag og njóta hans en ekki hökta í gömlum sárum ef ég kemst hjá því en ég kemst ekki hjá því, ég er svo mannleg. Ég dett stundum ofaní reiði yfir því að hafa átt samskipti við kærulausa og lata lækna en ég reyni að takmarka þann tíma sem fer í þessa reiði og mér tekst það oftast.

Ég fór á Heilsustofnun í Hveragerði og var þar í fjórar vikur í endurhæfingu, það var mjög góð dvöl með skemmtilegu fólki í yndislegu umhverfi. Það var samt frekar lágt á mér risið þegar ég kom heim, annaðhvort hafði ég nælt mér í einhverja pest eða að ég hef ofreynt mig. Ég var rúmliggjandi í nokkra daga eftir að ég kom heim og er ennþá talsvert eftir mig og svolítið sorgmædd yfir því að taugaverkirnir í fótunum eru núna verri eftir þessa dvöl. Ég er ósátt við að vera verkjuð alla daga en reyni að venjast því, það er víst ekkert annað í stöðunni en von mín um að losna alveg við þá hefur dofnað.

Ég tók þátt í stofnun félags fólks um öryggi sjúklinga og úrvinnslu atvika í heilbrigðisþjónustu, ætlun þess er að vera stuðningur við þolendur atvika, upplýsingaveita og samvinna við heilbrigðisyfirvöld. Félagið hlaut nafnið Viljaspor og til að vekja athygli á félaginu þá var ég beðin um að segja mína sögu í Fréttatímanum og kemur hún fram hér : SAGAN MÍN

Ég var komin í Hveragerði þegar blaðamaður hafði samband og ég lét móðann mása í gegnum síma, ég hefði kannski viljað vanda frásögnina betur en það var enginn tími til þess. Ég fékk nokkur símtöl eftir að viðtalið birtist, fólk þurfti að segja mér sína sögu, ég skil það vel, ég hefði viljað fá hlustun einhversstaðar eftir að mér var ljóst að ég hafði haft rétt fyrir mér allan tímann, að það var eitthvað annað eða meira að mér en þunglyndi.

Um helgina fékk ég svo fréttir af því að það væri vitnað í söguna mína í Tímanum, ég fann klausuna, hér er hún og rúmlega það;

Einnig eru dæmi um að sjúklingar
hafi gleymst, eins og í tilfelli Sigmars
B. Haukssonar fjölmiðlamanns sem
nýverið lést úr krabbameini. Að
standendur hans telja að hann hafi
gleymst innan kerfisins, og ekki
fengið þá umönnun og meðferð sem
nauðsynleg var á þeim tíma sem mest
bjátaði á. Þetta er bara eitt dæmi af
mörgum en Matthildur Kristmannsdóttir
fyrrverandi krabbameins sjúklingur
hefur lýst því á bloggi sínu og í
Fréttatímanum nýverið hvernig
henni var fálega tekið á bráðamóttöku
spítalans og hún ítrekað send heim
fárveik af lífshættulegum sjúkdómi.

Ég sat yfir blaðinu og grét, þakklát fyrir að hafa komist lifandi í gegnum kerfið en mjög ósátt og sorgmædd yfir þeim sem fóru kannski of fljótt. Ég vona að eitthvað verði hægt að læra af þessu öllu saman því þetta er dauðans alvara!

mottumars