Bráðum hálfnuð

Jæja, þá er ég komin inn í fjórðu lotu, ég fékk innhellingu í dag og það gekk alveg ljómandi vel í gegnum lyfjabrunninn. Samkvæmt því sem ég veit núna, þá á ég eftir að fara í gegnum fjórar lotur til viðbótar og þá er þessu ferðalagi mínu lokið. Mér finnst svo gott hvað þetta ferðlag er að kenna mér mikið, svo mikið meiri lærdómur núna heldur en þegar ég fékk krabbameinið fyrir 10 árum. Ég vona auðvitað að þetta mein láti ekki sjá sig meir en í raun ætla ég ekki að binda mig við slíkar hugsanir, núna dvel ég meira í deginum í dag, já loksins lærði ég það alveg í botn að kasta fortíð og framtíð frá mér og njóta líðandi stundar. Ég viðurkenni nú samt að ég hlakka mikið til þegar meðferðinni lýkur, það verða stór og góð tímamót.
==============

Mig langar að nöldra smávegis, þessvegna opnaði ég þessa bloggsíðu, til að nöldra og fá útrás en fyrst og fremst til að segja frá minni hlið í öllu þessu ljóta máli.

Á þessu ferðalagi mínu núna fæ ég allskonar upplýsingar og ráðleggingar frá fólki, stundum bið ég um upplýsingar en stundum fæ ég þær alveg án þess að biðja um þær. Ég hef fengið “alveg óbeðið” svo sjokkerandi upplýsingar að ég hef orðið mjög miður mín og ekki skilið tilganginn í frásögninni. Ég finn ekki að ég græði neitt á svona frásögnum og hreinlega alls ekki á óumbeðnum upplýsingum. Krabbamein er til í svo mörgum útgáfum og okkur er gefið mismunandi lyf og við verðum mis mikið veik. Mér finnst ég bara vera hálfgerður aumingi þegar mér er sagt frá fólki sem fer svo létt í gegnum sínar meðferðir á meðan ég lyfti varla haus frá kodda og svo hef ég ekkert gagn af því að heyra um fólk sem þurfti að fara í gegnum svo og svo margar lyfjalotur til viðbótar upphaflega áætluðum lyfjalotum. En … sko …. við erum svo mannleg, við særum og meiðum aðra án þess að gá að okkur og svo erum við stundum dugleg að misskilja og stundum heyrum við bara það sem við viljum heyra, það er ekki flókið þannig að þetta er alltaf einhver línudans í samskiptunum hjá okkur. Þessvegna er gott að muna þennan góða málshátt “Aðgát skal höfð í nærveru sálar”

Ég er svo heppin með minn krabbameinslækni, það er svo gott að ræða við hana og svo hef ég þar að auki Karitas hjúkrun og þær konur eru allar með vængi, ég fékk allan tíma í veröldinni í dag, bæði hjá lækninum og svo kom Karitas þegar ég var komin heim. Ég er að byggja upp traust á heilbrigðiskerfið aftur og það gengur vel með svona gott fólk allt í kringum mig.

Fjallganga

I

Urð og grjót.
Upp í mót.
Ekkert nema urð og grjót.
Klífa skriður.
Skríða kletta.
Velta niður.
Vera að detta.
Hrufla sig á hverjum steini.
Halda að sárið nái að beini.
Finna hvernig hjartað berst,
holdið merst
og tungan skerst.
Ráma allt í einu í Drottin;
– Elsku Drottinn!
Núna var ég nærri dottinn!
Þér ég lofa því að fara
þvílíkt aldrei framar, bara
ef þú heldur í mig núna!
Öðlast lítinn styrk við trúna.
Vera að missa vit og ráð,
þegar hæsta hjalla er náð.

II

Hreykja sér á hæsta steininn.
Hvíla beinin.
Ná í sína nestistösku.
Nafn sitt leggja í tóma flösku.
Standa aftur upp og rápa.
Glápa.
Rifja upp og reyna að muna
fjallanöfnin:
Náttúruna.
Leita og finna
eitt og eitt.
Landslag yrði
lítilsvirði,
ef það héti ekki neitt.

III

Verða kalt, er kvöldar að.
Halda seint og hægt af stað.
Mjakast eftir mosatónum.
Missa hælinn undan skónum.
Finna sig öllu taki tapa:
Hrapa!
Velta eftir urð og grjóti
aftur á bak og nið’r í móti.
Leggjast flatur.
Líta við.
Horfa beint í hyldýpið.
Hugsa sér
að höndin sleppi.
Hugsa sér
að steinninn skreppi.
Vita urðir við sér taka.
Heyra í sínum beinum braka.
Deyja áður dagur rynni.
Finnast ekki einu sinni.

IV

Koma heim og heita því,
að leggja aldrei upp á ný.
Dreyma margar næstu nætur
hrap í björgum, brotna fætur.
Segja löngu seinna frá því;
Sjáið tindinn! Þarna fór ég.
Fjöllunum ungum eiða sór ég,
enda gat ei farið hjá því,
að ég kæmist upp á tindinn.
Leiðin er að vísu varla
vogandi, nema hraustum taugum,
en mér fannst bara
best að fara
beint af augum.
Því hversu mjög sem mönnum finnast,
fjöllin há, ber hins að minnast,
sem vitur maður mælti forðum
og mótaði í þessum orðum,
að eiginlega er ekkert bratt,
aðeins mismunandi flatt.

~ Tómas Guðmundsson