Bráðamóttaka

Ég er óðum að hressast eftir uppskurðinn og losnaði við vírheftin úr kviðnum í dag. Mér líður vel og er mjög ánægð að þessi stóri uppskurður sé að baki. Ég er eiginlega svo djúpt sokkin í áhugamálin mín að ég þarf að beita mig smá hörku til að halda áfram að rifja upp þessa sögu en ég hef ákveðið að koma henni frá mér með góðu eða illu, ég ætla ekki að sitja með óuppgert mál mallandi inn í sálinni minni sem skjótast upp í kollinn eins og núna áðan þegar ég horfði á sjónvarpsfréttirnar í ríkissjónvarpinu. Þar var verið að tala um að ca 30 manns hefðu komið á bráðamóttöku í dag vegna hálkuslysa, ég hrökk í kút þegar ég heyrði þetta, fengu allir umönnun? Mín saga ber bráðamóttöku ekki gott vitni, svei þeirra vinnubrögðum gagnvart mér, já svei þeim!

Á árinu 2007 versnuðu veikindi mín mjög, ég var með mjög mikla verki í maganum og einnig fékk ég óumræðilega sáran höfuðverk vinstra megin, ég fór að missa smá saman orku og í nóvember missti ég allt vald á daglegu lífi. Ég svaf í 16 – 20 tíma á sólarhring og það var alveg sama við hvaða lækni ég reyndi að tala við, svörin sýndu öll áhugaleysi á ástandi mínu. Í janúar hafði ég misst 10 kíló og var orðin mjög áhyggjufull, stóð ekki undir sjálfri mér og átti í miklum erfiðleikum með að fara út í búðir til að ná mér í mat. Einn daginn vaknaði ég upp með mikinn hita og þá ákvað ég að biðja um hjálp, ég hringdi í systur mína og sagði henni að þennan dag myndi ég deyja ef ég fengi ekki hjálp. Hún kom og henni var mjög brugðið þegar hún kom inn til mín og sá mig, hún pantaði strax sjúkrabíl og hann kom strax, það þurfti að gefa mér súrefni og ég var borin út í bíl.

Ég var skoðuð við komu og ég spurði strax hvort einhver gæti hjálpað mér að þvo mér en ég fékk ekkert svar við því. Ég var látin bíða og svo var ég yfirheyrð og tekið blóð og svona gekk þetta í ca 3 – 4 klukkutíma, mest fór tíminn í að bíða. Loksins kom læknirinn og sagði að það væri ekkert athugavert við blóðið og að ég mætti fara heim. Systir mín sótti í sig veðrið og mótmælti harðlega, hún fékk það svar að ég ætti sögu um þunglyndi og að það yrði ekki lagt í rannsóknir nema geðlæknir myndi skoða mig fyrst og að þá yrði að kalla hann út á bakvakt (vá). Ég samþykkti strax að fá geðlækni til að skoða mig, allt vildi ég gera til að fá einhverja niðurstöðu í hvað gengi að mér. Geðlæknir var kallaður út og hann kallaði mig afsíðis og ræddi stuttlega við mig, hann útskýrði fyrir mér að það væri best að ég færi heim núna og að hann myndi hringja í minn geðlækni og fá næsta tíma flýtt svo að hann gæti tekið ákvörðun. Ég sagði þessum geðlækni að ég væri alveg viss um að þetta væri ekki þunglyndi en það þýddi ekkert fyrir mig að reyna að sannfæra hann um það. Systir mín studdi mig út og keyrði mig heim og ég hélt áfram að sofa. Þremur dögum síðar fylgdi hin systir mín mér til míns geðlæknis og hann lét leggja mig inn á geðdeild, alveg sama þótt ég gréti fyrir framan hann og segði honum að þetta væri ekki þunglyndi, hann sagði mér að þunglyndi mitt væri nú komið á nýtt stig, það væri orðið mjög djúpt og jafnvel lífshættulegt. Þessir menn hafa menntunina til að segja svona við sjúkling en ég get sannað það núna þótt ég sé ennþá sjúklingur að þeir höfðu svo sannarlega rangt fyrir sér!