Bleiki dagurinn er haldin ár hvert til að minna á alvarlega sjúkdóma, krabbamein sem enginn vill fá. Ég er eitthvað pirruð yfir því hvernig honum er snúið uppí eitthvað glimmer djók. En svona er ég bara eftir að hafa kynnst því að liggja veik með krabbamein tvisvar sinnum. Ég vil ekki gantast með svona alvarlega hluti, margir eiga um sárt að binda eftir að sjá á eftir ástvinum sínum sem krabbameinið tók og bleiki dagurinn minnir okkur á að okkur ber að minnast þess hvað þessi sjúkdómur er skæður, grimmur og heggur þungt. Bleiki dagurinn er notaður til að selja bleika slaufu til að safna í sjóð, núna fyrst vill Krabbameinsfélagið byrja að skima fyrir ristilkrabbameini, betra seint en aldrei auðvitað en það deyr ein manneskja í hverri viku vegna þessa sjúkdóms.
Núna í þessari viku fjallaði Spegillinn á Rás1 um málið mitt, ég ætla að setja þessa umfjöllun hérna inn núna en ýmislegt hefur verið að gerast síðan ég kvartaði til Umboðsmanns Alþingis yfir Landlæknisembættinu. Ég bíð núna eftir að fá fund hjá Landlæknisembættinu og reikna þá með að ég fái þá þjónustu sem ég átti að fá þegar ég leitaði til þeirra í febrúar 2012. Núna geri ég mér betur grein fyrir að þetta embætti á að aðstoða mig, því miður hef ég ekki fram að þessu haft það á tilfinningunni að einhver vilji aðstoða mig en núna bíð ég eftir fundinum og hlakka mikið til að fá góðar móttökur hjá starfsfólki embættis sem sér um öryggi sjúklinga í Íslensku heilbrigðiskerfi.
Hér er umfjöllun Spegilsins á málinu mínu : Þrír þættir
Hér er líka góð grein um ristilkrabbamein : Hinn Þögli Morðingi