Október er mánuður Bleiku slaufunnar, árveknis- og fjáröflunarátaks Krabbameinsfélags Íslands gegn krabbameinum hjá konum. Þá er ekki verið að tala um t.d. ristilkrabbamein heldur einungis krabbameinstegundir sem konur fá og auglýsingar ganga út á að leita að konum og fá þær til að koma og fá krabbameinsleit.
Ég greindist með leghálskrabbamein fyrir 14 árum og fékk meðferð við því sem tókst mjög vel og í framhaldi af meðferðinni var ég í öflugu eftirliti árum saman. Ég er mjög þakklát fyrir hvað þessi þáttur minnar sjúkdómssögu gekk snurðulaust en fram að þessum tíma hafði ég verið mjög hraust eins og má lesa í læknabréfi skrifuðu í sept árið 2000 : Heilsufarssaga: Hefur verið mjög hraust í gegnum tíðina, engin vandkvæði frá hjarta, meltingarkerfi, miðtaugakerfi, öndunarfærum, þvagkerfi eða stoðkerfi. Neikvæð ættarsaga um cancer. Engar aðgerðir.
Að sama skapi er ég mjög ósátt við afgreiðslu minna mála í heilbrigðisþjónstunni frá árinu 2006 til 2010 þegar ég fékk loksins rétta greiningu þegar ég var greind með ristilkrabbamein stig 3c en ég hafði verið hraðgreind með þunglyndi árum saman án útilokunar á að einkenni mín væru líkamlegs eðlis. Ég fékk svo að vita að ristilkrabbameinið hefði verið að vaxa í 10 ár eða alveg frá árinu 2000 eða jafnvel lengur. Eins og ég hef áður talið upp hér á þessu bloggi þá hitti ég marga heilbrigðisstarfsmenn á þessum árum og kvartaði mikið og var ósátt við þunglyndisgreininguna og þessi þrautaganga mín endaði í september árið 2010 þegar ég lét flytja mig tvisvar í sjúkrabíl á bráðamóttöku og slóst þar fyrir lífi mínu.
Vegna þess að batahorfur sjúklinga með krabbamein eru að miklu leyti háðar því hve útbreiddur sjúkdómurinn er við greiningu hafa ýmsar leiðir verið reyndar til þess að greina meinin áður en þau valda yfirleitt nokkrum einkennum. Þetta byggist á því að til séu greiningarleiðir þar sem hægt er að finna sjúkdóminn á frumstigi. Þessar leiðir þurfa að vera nógu áreiðanlegar og hættulitlar til þess að réttlæta notkun þeirra á einkennalausa einstaklinga. Fleiri atriði en þessi þarf einnig að hafa í huga þegar ákvarðað er hvort hefja skuli skimun að krabbameini. Skimun (einnig nefnt hópleit eða kembileit) hefur sýnt árangur við leit að brjóstakrabbameini, leghálskrabbameini og ristilkrabbameini, en enn sem komið er ekki við önnur krabbamein.
—–
Þarna sést að hægt er að finna ristilkrabbamein á frumstigi og hefði verið hægt að finna mitt mein mikið fyrr en það var gert. Það sem ég er mest ósátt við er þögnin í kringum þetta allt saman þar sem Landlæknisembættið gaf út klínískar leiðbeiningar fyrir 12 árum síðan um skimun fyrir krabbameinum í ristli og endaþarmi. Skv þessum leiðbeiningum hefði ég átt að fá mína fyrstu skimun árið 2003 og síðan einu sinni á ári eftir það sem gerir SJÖ SINNUM áður en ég fékk mína fyrstu þegar ég var í slagsmálum inná bráðamóttöku til að bjarga lífi mínu í september árið 2010. Til hvers eru þessar leiðbeiningar og fyrir hvern? Vinna læknar ekki eftir klínískum leiðbeiningum Landlæknis? Ég skil ekki þögnina um þetta mál, við höfum Krabbameinsfélagið og við höfum Bleiku Slaufuna og ýmis samtök í kringum krabbamein en við sleppum læknum við að fara eftir klínískum leiðbeiningum Landlæknis í meira en áratug! Finnst öllum þetta eðlilegt? Mér finnst það ekki.
Svo er hér smávegis sem ég greip úr fréttum í vikunni, Landlæknir að tala um öryggi og rétt sjúklinga :