Lífið hélt áfram og tók U-beygju

Ég skrifaði síðustu færslu í þessu dapra bloggi fyrir 8 árum,  Það var árið 2016 og ég var búin að fá nóg af því að hanga í neikvæðni yfir því sem hafði gerst og taugaverkirnir sem komu í lyfjameðferðinni fóru ekki alveg sama hvað var reynt.  Þeir skánuðu við mjög sterk verkjalyf en það var langt í land að þeir færu.  Ég veit það í dag að þeir munu aldrei fara og ég er ennþá á verkjalyfjunum.

 

Ég virtist ekki ná mér upp úr depurðinni yfir því að hafa misst heilsuna og svo fannst mér dapurt yfir öllu, ég var búin að missa öll tengsl við fólkið mitt og saknaði þess að geta ekki lengur unnið úti og eiga vinnufélaga.

Mér fannst líka dapurt yfir öllu á Íslandi.


Árið 2017 var heilsan aðeins að skána.  Ég fann fyrir auknum krafti og þótt hann hafi ekki verið mikill þá var hann nægur til þess að ég tók ákvörðun um að fara til Spánar eins og læknirinn minn stakk uppá til að hressa aðeins uppá mig.  Ég hafði samt engan kraft til að ganga í gegnum flugstöðina en fékk hjólastóla aðstoð.  Eftir flugið út þá var ég örmagna, ég var sett á pallinn á vörubíl í hjólastól og fleira fólk var með mér sem þurfti aðstoð eins og ég.  Ég var samt alveg í skýjunum að hafa komist alla leið út.  Ég get sagt að þarna hafi ég byrjað að gleðjast á ný.  Ég fór að ganga mikið meira úti en á Íslandi, ég fann að verkirnir voru talsvert daufari þarna í hitanum eins og verkjalæknirinn minn hafði sagt mér að myndi gerast í hitanum.  Ég leigði mér lítið hús sem vinkona mín átti og mér leið vel þar til að það fór að kólna um veturinn, þá hélt ég mig inni og var svo heppin að það fylgdi íslenska sjónvarpið og svo var ég líka með prjónana með mér.  Þetta voru  breyttir tímar fyrir mig en samt upphafið að betra lífi.