Eftir að ég útskrifaðist af geðdeild snemma árið 2002 þá komst ég að hjá góðum geðlækni, mér var allavega sagt að hann væri góður en ég áttaði mig ekki á því hvernig hann vann. Ég mætti í tíma hjá honum og vissi ekkert um hvað ég átti að tala og þá fór jafnvel helmingur tímans í að þegja sem var oft mjög vandræðalegt og erfitt. Tímanum lauk alltaf á sama hátt, læknirinn spurði hvort mig vantaði einhver lyf og stundum stakk hann uppá að ég reyndi eitthvað nýtt lyf, ekki nýtt á markaðnum heldur nýtt fyrir mér og ég treysti honum fullkomlega, hann hafði þessa fínu menntun en ég hafði ekkert vit á þessum málum.
Eftir því sem tíminn leið fann ég að ég var ekki sátt við hann, ég átti í mestu erfiðleikum með að tala við hann og mér leið hörmulega þrátt fyrir að hann væri alltaf að láta mig prufa einhver ný lyf. Ég var ekki að vinna úti og fann að vanlíðan mín yfirtók mig alveg. Ég hafði verið á lyfi sem heitir Efexor í talsverðan tíma og læknirinn var jafnt og þétt að hækka skammtinn eftir því sem ég kvartaði meira og svo fékk ég fleiri lyf til að prufa með en Efexor var eitt af þessum föstu lyfjum sem tók. Ég ákvað að ræða það við hann að líklega þyldi ég ekki þetta lyf og vildi hætta á því, hann var ekki sammála mér en loksins féllst hann á að ég skyldi hætta á því og byrja á öðru lyfi. Hann lét mig skrifa niður á blað hvernig ég ætti að trappa mig niður af Efexor og byrja á Cipralex og svo átti ég að mæta aftur til hans eftir mánuð. Þetta fór mjög illa með mig og ég lenti aftur inná geðdeild með ranghugmyndir og ótrúlega vanlíðan. Geðlæknirinn sem annaðist mig á geðdeildinni sagði að þetta væri alveg eðlileg líðan miðað við að ég væri að skipta um lyf. Mér hafði aldrei á æfinni liðið svona illa og komst að því síðar að þessi niðurtröppun af Efexor og upptröppun á Cipralex hefði átt að taka talsvert lengri tíma.
Eftir þetta fann ég að ég treysti geðlækninum ekki lengur og langaði að hætta en ég var að reyna að finna leið til að komast út á vinnumarkaðinn aftur svo ég hélt áfram hjá honum með sama núll árangri.
Í október 2002 fann ég rólega vinnu á litlum vinnustað rétt hjá heimili mínu og ákvað að slá til og stökkva útí djúpu þótt ég væri ekki orðin vel sterk. Nokkrum mánuðum síðar var fyrirtækið sett í greiðslustöðvun og það var meira en ég þoldi. Ég ræddi við heimilislækninn minn og bað um að komast á endurhæfingu. Stuttu síðar fann ég annan geðlækni og taldi mig hafa dottið í lukkupottinn, ég byrjaði hjá honum í ársbyrjun 2004. Það var auðveldara að tala við hann, hann fór yfir öll lyf sem ég var á og hann jók skammtinn minn á Cipralex upp í 30 mg en ég hafði samt lesið um að 20 mg væri hámarksskammtur og orðaði það við hann, hann hristi höfuðið brosandi og sagði að það væri ekki rétt.
Mér dettur í hug núna, þegar ég er að skrifa þetta, útskrifast fólk aldrei frá geðlæknum? Segir geðlæknir aldrei, JÆJA, nú ert þú bara að verða nokkuð góð og átt að minnka skammtinn af lyfjunum… … Eða … Heyrðu, þú tekur engum framförum Matthildur, kannski er bara eitthvað annað að angra þig, þú ert alltaf að kvarta yfir magaverk og höfuðverk og …. kannski að ég sendi þig í nokkrar rannsóknir! Eeeen, NEI, minn geðlæknir sagði aldrei neitt svona, hann spurði mig bara um það sama og hinn geðlæknirinn, vantar þig einhver lyf í dag? Hittumst eftir mánuð!