Ég átti tíma hjá geðlækninum í dag, mér tókst ekki að mæta í síðsta tíma og heldur ekki í dag. Ég hringdi í hann fljótlega eftir að ég greindist með krabbann og bað hann um að ítreka umsókn um neiðarhnapp sem ég hafði fengið neitun á hjá Sjúkratryggingum, ástæðan fyrir því að ég vildi fá neiðarhnapp var sú að ég lamaðist nokkrum sinnum og í September hringdi ég á sjúkrabíl en tókst ekki að opna fyrir sjúkraflutningsmönnunum og sonur minn varð að loka vinnustaðnum sínum og koma til að opna fyrir þeim. Eftir þetta varð ég hrædd og vildi fá neiðarhnapp og geðlæknirinn sótti um fyrir mig en ég fékk neitun.
Eftir að ég greindist með krabbann þá hringdi ég í hann og bað hann um að sækja aftur um neiðarhnappinn og sagði honum fá greiningunni, mér fannst viðbrögðin hans skrýtin, hann sagðist bara ekki hafa vitað að ég væri með krabbamein og svo kvaddi hann. Ég er búin að vera hjá honum í sjö ár og hitta hann einu sinni í mánuði í þessi ár, ég hef grátbeðið hann um að hjálpa mér að finna fleiri rannsóknir sem ég gæti farið í en þegar ég sat fyrir framan hann og hann sagði við mig að það væri ekkert eftir til að rannsaka þá var mér virkilega brugðið, ég bara vissi að það var ekki búið að finna meinið en ég var of veik til að biðja um meiri hjálp.
Hvernig gat þessi læknir fullyrt þetta við mig þegar ég var með æxli á stærð við stóra appelsínu í ristlinum og var orðin langlegu sjúklingur alein heima hjá mér? Nei ég treysti mér ekki til að mæta til hans í dag, ég varð fárveik við tilhugsunina um að sitja fyrir framan hann! Þá lét hann ritarann sinn hringja í mig, ja hérna, þvílíkur manndómur að geta ekki hringt sjálfur! Ég satt að segja hélt allan tímann sem ég gekk til þessa læknis við værum nokkurskonar team og að við værum að vinna sameiginlega að því að finna út úr því hvað væri að hrjá mig, hann var alveg öruggur að mín veikindi væru daprar hugsanir en ég efaðist stórlega um það! Hvað gerir hann svo þegar ég segi honum í símanum að ég sé með krabbamein, ekki neitt, “ég vissi ekki að þú værir með krabbamein, allt í lagi bless”.
Var þessi læknir allan tímann að hugsa um mína hagsmuni eða um hvað var hann að hugsa? Það eru þrjú ár síðan að yngsti sonur minn vildi reyna að gera eitthvað fyrir mig þegar hann sá hvað ég kvaldist í maganum, hann fór í apótekið og lýsti þessum einkennum fyrir starfsfólkinu og fékk magamikstúru, núna velti ég því fyrir mér hvor þeirra, læknirinn eða sonurinn hafi haft meiri áhuga á að hjálpa mér!
Ég þurfti hjálp og fann virkilega hvað ég var vanmáttug í alla staði vegna þess að ég var fárveik! Það þurfti bara einhver að sjá það!