Tauglæknirinn skrifaði á miða nafnið á lyfi og sagði mér að láta geðlækninn hafa miðann. Ég gerði það og geðlæknirinn sagði að þetta lyf væri þannig að það myndi halda mér vakandi, það hefði hressandi áhrif. Mér varð um og ó og spurði hvort það þyrfti ekki að finna fyrst út hvað það væri sem ylli þessum rosalega svefni og orkuleysi, geðlæknirinn reyndi að sannfæra mig um að orsökin væri daprar hugsanir, þunglyndi.
Hann hafði sent mig á námskeið í hugrænni atferlismeðferð en ég hafði líka lært hana á Reykjalundi, svo eftir að ég útskrifaðist af geðdeildinni þá var mér boðið á námskeið í nokkurskonar áframhaldi af hugrænni atferlismeðmeðferð, Díalektísk atferlismeðferð og þar fékk ég líka listmeðferð, að tjá tilfinningar með litum, teikna og lita á blöð. Ég man alltaf að þegar ég fór í fyrsta sinn þá hitti ég sálfræðinginn, þetta var einskonar innritunarviðtal inn í námskeiðið og við vorum bara tvær að tala saman, ég trúði henni fyrir því að ég væri ekki með þunglyndi, þetta væri misskilningur í geðlæknunum, þeir ættu bara eftir að átta sig á því öllu saman. Ég sé það núna að ég hef líklega hljómað snældu geðveik en það sló virkilega út í fyrir mér á þessum tíma. Vinkona mín og elsti sonur minn urðu greinilega vör við þetta, ég hef orðað þetta þannig að ég var inní þoku en þegar þarna var komið þá var ég komin inn í einhverskonar jelly, en ég var samt þarna, ég fylgdist með lífinu þjóta framhjá, starfsfólk heilbrigðiskerfisins og vinir og ættingjar voru þarna en ég náði ekki sambandi. Svo var ég líka dálítið misjöfn, suma daga náði ég ekki meðvitund og suma daga tókst mér að fara út í búð og kaupa í matinn.
Ég þrælaðist í gegnum þetta námskeið en ég gat ekki lesið heimaverkefnin, það var auðveldara að lita með tússlitum, ég rifjaði upp allt í lífi mínu sem hafði farið úrskeiðis og úttalaði mig um þetta allt saman, vá hvað það var gott og ég sá fram á betri líðan og að ég gæti byrjað að taka þátt í lífinu aftur.
Nei, þrátt fyrir alla þessa vinnu, sem stóð heilt sumar, þá lagaðist ekkert hjá mér. Ég var jafn orkulaus og hélt áfram að sofa jafn mikið.
Ég spáði ekkert í hvaða lyf þetta væri sem taugalæknirinn hafði skrifað á miðann, ég lét bara geðlækninn hafa miðann og hann sagðist þurfa að sækja um það fyrir mig sérstaklega til tryggingastofnunar. Tryggingastofnun neitaði mér um þetta lyf, geðlæknirinn útskýrði fyrir mér að þetta lyf væri mjög dýrt en að hann væri til í að sækja um aftur, setja smá trukk í umsóknina og þá myndi ég líklega fá lyfið. Ég sagðist vera búin að vinna svo mikið í sjálfri mér að ég væri örugglega bara rétt alveg að ná þessu sjálf, ég vildi reyna allt sem ég gæti til að ná þessu án þess að bæta við lyfin. Mér fannst líka alveg ómögulegt að fyrst tryggingastofnun hafði neitað mér um þetta lyf að ég væri eitthvað að væla í þeim, “gerðu það plís, má ég fá þetta lyf svo ég geti lifað eðlilegu lífi”, nei, not my style!
En allar mínar tilraunir til að lifa eðlilegu lífi mistókust, það var alveg sama hvað ég reyndi að gera, ég gat ekkert gert nema sofið. Ég veit það núna að ég var engan vegin meðvituð um það sjálf hvað ástandið á mér var orðið alvarlegt þegar þetta var. Samt vissi ég mjög vel að ég þurfti hjálp, ég vissi bara ekkert hvernig ég átti að fara að því að koma fólki í skilning um hversu veik ég var.
Mér var sagt milljón sinnum að fara út í gönguferðir, bókstaflega allir í kringum mig höfði þetta frábæra ráð fyrir mig en enginn virtist skilja að ég gat ekki hreyft mig og það þýddi ekkert fyrir mig að reyna að segja fólki það. Ég spurði xxxx einu sinni hvort ég væri mjög treg, heimsk, illa upplýst, löt eða kannski þrjósk, “afhverju heldur þú að ég fari ekki í gönguferðir ef þær eru svarið við öllum þessum vandamálum mínum?” Ég átti mér bara eina ósk og hún var að ná heilsu aftur, lífið mitt var ekkert líf lengur. Ráðleggingin var alltaf sú sama, að ég átti að byrja á að fara í 5 mínútna gönguferð og smá lengja svo ferðina, ég marg reyndi þetta en þær tilraunir enduðu alltaf með því að ég lá meðvitundarlítil dögum saman á eftir, ég var mjög völt á fótunum og svo hafði ég enga orku til að ganga.
Ég, kona á besta aldri, var orðin langlegusjúklingur ein heima hjá mér, með geðlækni og heimahjúkrun sem hringdi í mig einu sinni í viku og kom stundum, þau fylgdust með mér veikjast meira og meira og þeirra eina úrræði virtist vera að skaffa mér lyf og reyna að fá mig til að fara í göngutúra, lengra náði þeirra skilningur ekki.