Ég hitti skurðlækninn í vikunni, hann útskýrði allt mjög vel fyrir mér, hverning staðan var þegar hann opnaði mig. Æxlið hefur verið að vaxa þarna í mörg ár, jafnvel 10 ár sagði hann. Þetta byrjar með því að lítill sepi fer að vaxa og í mínu tilviki þá skreið æxlið hringinn í kringum ristilopið og fór svo að draga ristilinn saman og þrengja gatið, það var mjög lítið gat eftir og hann sagði mér að áður fyrr hefði fólk dáið þegar gatið lokaði sér endanlega. Það er ekki skrýtið að heilsan hafi ekki verið góð og ég mæli eindregið með að fólk biðji um ristilspeglun ef það hefur átt við heilsuleysi að stríða. Það er ekki hægt að treysta fullkomlega á menntaða lækna og hjúkrunarfólk. Við berum fyrst og fremst ábyrgð á heilsunni okkar sjálf og eigum að vera dugleg að standa með okkur sjálfum og biðja um ýmsar rannsóknir ef við teljum þörf á því.
Ég fékk möppu með upplýsingum um krabbameinsmeðferðina á deildinni, í þessari möppu get ég lesið um þau lyf sem ég tek og ýmsar aukaverkanir og það sem gæti verið að bögga mig og hvernig ég finn mín bjargráð við þessar kringumstæður. Það sem vakti athygli mína er kafli um “Þreytu og slen” – ég hef legið hér heima hjá mér með þreytu og slen sl þrjú ár og gleypti því þennan kafla í mig og ætla nú að skrifa hann upp fyrir ykkur. Mér þykir þetta vera mikilvæg viðbót í frásögnina mína því þessi þreyta og slenið var greint hjá mér sem þunglyndi og kvíði og geðhvörf og flogaveiki og drómasýki og sitthvað fleira en í dag kannast ég aðeins við að vera með lítilsháttar kvíða. Mér tókst hinsvegar eftir harða baráttu inná bráðamóttöku nú í september sl að fá lækna til að biðja um þá rannsókn sem leiddi til þess að krabbameinið uppgötvaðist, ég barðist ein og óstudd til sigurs og er ánægð með að geta sagt frá þessu en liggja ekki liðið lík á kistubotni í einhverri mistakahrúgu innan geðheilbrigðiskerfisins!
….
Þreyta og slen
Margir finna fyrir þreytu og sleni sem getur stafað af krabbameininu sjálfu og/eða þeirri meðferð sem gefin er. Þreyta lýsir sér í orkuleysi, erfiðleikum við að framkvæma verk sem áður var auðvelt að leysa, framtaksleysi, letitilfinningu, skorti á einbeitningu, aukinni þörf fyrir hvíld, minni þáttöku í félagslífi, minnkaðri kynhvöt og almennu áhugaleysi. Þreyta getur verið mismikil og breytileg eftir tíma og aðstæðum. Hjá einstaklingum sem fá meðferð með krabbameinslyfjum er þreytan breytileg. Oft er hún mikil fyrstu dagana eftir meðferðina og á því tímabili sem áhrif lyfjanna á beinmerg eru mest. Þess á milli getur hún verið minni. Hjá einstaklingum sem fá geislameðferð eykst þreytan oft eftir því sem líður á meðferðina og er yfirleitt mest við lok hennar og í nokkurn tíma eftir að henni er lokið.
Orsakir
Margar orsakir geta verið fyrir þreytu og sumar er hægt að meðhöndla beint. Eftirtaldar eru nokkrar algengar orsakir fyrir þreytu og sleni:
Blóðleysi, þegar rauðum blóðkornum fækkar.
Sýkingar, t.d. í kjölfar fækkunar á hvítum blóðkornum.
Truflun á nætursvefni eða of mikil líkamleg áreynsla.
Lítið líkamlegt þrek og úthald.
Ónóg næring.
Notkun ýmissa lyfja s.s. verkjalyfja eða róandi lyfja.
Sjúkdómurinn sjálfur þar sem krabbameinsfrumurnar keppa við aðrar frumur líkamans um næringu.
Kvíði, þunglyndi og almenn andleg vanlíðan vegna breytinga og álags.
Bjargráð
Forgangsraðaðu verkefnum og dreifðu þeim yfir daginn, t.d. hvað er mikilvægt að gera nú eða í dag og hvað má bíða. Forðastu orkumiklar athafnir og fáðu aðstoð og hjápartæki til að létta þér störfin. Hafðu t.d. stól í sturtunni og fáðu aðra til að edla og þvo þvott. Hvíldu þig, t.d. með því að setjast niður og leggjast fyrir stutta stund. Fáðu þér blund, en gættu þess að halda reglu á nætursvefni.
Farðu í gönguferðir eða gerðu líkamsæfingar, helst daglega, í stuttan tíma í byrjun meðan þú ert að auka getu þína, (stundum eru 5 mínútur einu sinni til tvisvar á dag nóg) og auktu síðan tímann hægt og rólega eftir getu þinni. Taktu tíma í að gera ánægjulega hluti.
Dreifðu huganum, t.d. með því að lesa, hlusta á tónlist, horfa á bíómyndir eða gefðu þér tíma fyrir slökun. Borðaðu orku og próteinríkan mat og drekktu vel af vökva (2 lítra á dag) Fylgstu með að þér verði hvorki of heitt né of kalt. Taktu þátt í félagslífi, farðu í heimsóknir til vina og reyndu að viðhalda félagslegri virkni þinni.
….
Mér datt svo margt í hug eftir að ég las þetta í möppunni en það sem stendur uppúr í huga mínum er helst sú undrun að allur þessi tími leið án þess að einhver staldraði við og hlustaði almennilega á það sem ég var alltaf að segja.
::::::::::
Hérna er fyrsti hluti af 18 af fræðslumyndinni Marketing of Madness, mjög athyglisverð samantekt. Endilega horfið á hina 17 hluta myndarinnar, þið finnið þá hvern á fætur öðrum, þegar einum þætti líkur þá sést næsti þáttur og þá er bara að klikka á hann.