Heimahjúkrun hafði oft sagt við mig að einhversstaðar væru mín bjargráð, ég þyrfti bara að finna þau. Ég var allsstaðar að grúska, en ég hafði ekki mikinn tíma, ég svaf mest allan sólarhringinn og það tók mig talsverða orku og tíma að versla inn mat og elda og þrífa mig, mikið meira gerði ég ekki. Ég átti mína spes staði þar sem mér tókst að njóta smá útiveru og fegurð náttúrunnar en ég er mikil fuglaáhugakona, það er malarvegur stutt frá heimili mínu sem ég keyrði stundum eftir á góðum dögum og tók kríumyndir, mér tókst að hálf liggja uppá bílnum og smella af myndavélinni, þetta er fáfarin vegur og þessvegna gat ég athafnað mig allavega. Í júní sl var þessum malarvegi lokað með þykkri keðju, þá fannst mér öllu lokið. Ég stóð frammi fyrir ákvörðun, mig langaði að deyja, ég gat þetta ekki lengur, mig langaði ekki að lifa þessu lífi lengur, það var ekkert eftir, ég sá hvergi út úr þessum aðstæðum. En þá kom þrjóskan upp, ok, ég ætlaði að gefa mér smá tíma í að velta við síðustu steinunum og vita hvað kæmi í ljós, ef ég fyndi ekkert undir þeim þá væri þessu bara sjálfhætt, ég var sátt við þessa ákvörðun. Ég reyndi að láta opna þennan malarveg aftur en það tókst ekki.
Ég hafði oft reynt að breyta um matarræði og lesið mikið um t.d. að taka allar mjólkurvörur út og ger og sykur og fleira. Ég man að ég var einhverntíma að spjalla við tannlækninn minn sem er mikil áhugakona um góða heilsu, ég spurði hana út í ýmislegt sem gæfi manni aukna orku og þá kom hún með gullkorn sem fór í gullkornabankann minn, “kannski þarftu að taka eitthvað út ….”
Ég tók mig til um síðustu áramót og hætti að reykja, ég hafði hætt áður en húkkaðist þá á nikótínlyf sem felldu mig eftir 7 ára japl á tyggjói en í þetta sinn hætti ég af fullri alvöru, fékk lyf sem heitir Champix og eftir þrjá mánuði var ég alveg hætt. Um vorið var ég búin að finna grúppu á facebook sem heitir Síþreyta & Vefjagigt – Úrræði & nýjungar í læknisfræði og þar í gegn fann ég aðra grúppu sem heitir GAPS á Íslandi-A GAPS diet support group in Iceland. Þarna byrjaði ég að finna mín fyrstu virkilegu bjargráð, ég ákvað að spá í þetta matarræði og las allt sem ég náði í um þetta. Ég staðsetti mig líka inn í þessum hóp, ég var greind með vefjagigt og allt í einu varð mér ljóst að vefjagigt og síþreyta er sami sjúkdómur. Um leið og ég byrjaði að fikra mig inn í þetta fæði þá fann ég að ég byrjaði að hressast, ég fór að geta haldið mér vakandi talsvert meira á hverjum sólarhring. Ég tók út allar mjólkurvörur og hveiti og kornvörur og sykur og svo smá saman byrjaði ég að lesa mér betur til um hvað þetta Gaps matarræði snérist um, ég keypti mér eina þýdda bók og svo pantaði ég aðra í gegnum amazon.com en mest las ég á netinu.
Ég kynntist líka fólki í gegnum þessar grúppur og safnaði að mér góðum ráðum, ein grúppa í viðbót sem ég fann var Hypothyrodism 2, þar í gegn fann ég nokkur góð ráð sem gögnuðust mér vel og ég ákvað að komast aftur til innkirtlasérfræðings og núna ætlaði ég ekki að biðja geðlækninn að hjálpa mér í þessu máli.
19.júlí varð umbylting í mínu lífi, ég var þá farin að hressast talsvert mikið og farin að finna fyrir smá vonarglætu. Þennan dag hringdi ég í vinkonu mína og bauð henni í bíltúr með mér um kvöldið austur að Þingvöllum, þegar við vorum hálfnaðar austur þá datt mér allt í einu í hug að mig væri svo lengi búið að langa til að fara vestur á Snæfellsnes, að Arnarstapa, ég nefndi þetta við vinkonu mína og við tókum U-beygju og enduðum um miðja nótt í dásamlegu veðri á Arnarstapa. Þegar við kúrðum undir hlýjum teppum í bílnum til að ná okkur í smá kríu þá mundi ég allt í einu eftir að ég hafði gleymt öllum geðlyfjunum mínum heima, ég hafði bara ekki gert ráð fyrir svona kæruleysislegu útstáelsi og varaði vinkonu mína við því að morgunin eftir myndi ég vakna úber geðveik og við sofnuðum hlæjandi við styttuna af Bárði Snæfellsás. Morgunin eftir var yndislegt veður og hvorug okkar spáði í geðlyfin mín, þau voru gleymd og við áttum yndislegan dag og ekkert bar á þunglyndi né drómasýki og alls ekki á geðhvörfum eða vangahvot eða migreini og ég fékk ekkert flogakast, við höfðum engan tíma til að spá í neitt af þessu, það var svo gaman.
Um kvöldmatarleytið þegar við vorum komnar langleiðina til baka til Reykjavíkur þá fórum við að spjalla um hvað þessi dagur hefði verið góður og hvað mér hefði tekist að halda mér vel vakandi þrátt fyrir að hafa ekki þessi hressandi rándýru lyf með mér. Þarna kviknaði sú hugmynd að taka þetta allt í mínar hendur, ég ákvað að hætta á öllum lyfjum, fara þvert á það sem geðlæknirinn og heimilislæknirinn minn höfðu ráðlagt. Ég byrjaði strax að trappa niður lyfin og ég fann mun.
Stuttu seinna las ég inn í Síþreytugrúppunni um hvað venjuleg heimilis hreinsiefni og ýmsar snyrtivörur og krydd gæti gert manni illt, það væri betra að nota umhverfisvæn hreinsiefni og ég tæmdi skápana, út með allt þetta eitur og keypti inn allt aðrar vörur, snyrtivörurnar fóru sömu leið og allt krydd nema frá pottagöldrum. Ég hélt áfram að finna mun, athyglisbresturinn stórlagaðist, ég kom út úr þokunni og svefninn varð eðlilegri. Ég fór að geta talað heilu setningarnar án þess að stama og svo fóru að koma tvær setningar í einu án þess að ég hikaði. Ég man þegar ég skipti um uppþvottalög, allt í einu var svo gaman að stússast í eldhúsinu, ég varð tuskuóð upp í öllum skápum.
Ég fór að geta gengið úti, ég þorði að ganga aðeins í burtu frá bílnum, mig svimaði ekki, ég var ekki völt á fótunum, ég fann meiri orku. Ég varð betri í höfðinu og taugapínan vinstra megin hætti alveg að koma, brunatilfinningin í puttunum minnkaði og ….. ég byrjaði að finna fyrir smá gleði, ég byrjaði að sjá að það var einhversstaðar ljós þarna …. von og gleði fæddist aftur í brjósti mér.