2.september sl átti ég tíma hjá geðlækninum, ég hlakkaði mikið til að hitta hann og segja honum tíðindin að ég væri hætti á lyfjunum og að ég væri að finna heilsuna mína aftur, ég leit orðið mikið betur út og var nú byrjuð að ganga úti í hvaða veðri sem var, stundum meira en klukkutíma í einu. Ég var óskaplega hamingjusöm og mér fannst ég hafa hreppt stærsta vinninginn í lífi mínu að finna aftur heilsuna mína.
Oft var þetta búið að vera svo erfitt að ég efaðist um að ég væri vakandi og hélt að þetta væri martröð. Mér fannst öll fjölskylda mín bregðast mér, ég var eiginlega afskrifuð eins og lík í poka, það þurfti bara að finna stað þar sem ætti að henda pokanum. Mér var bent á að kannski gæti ég fengið pláss á elliheimili en allavega þá átti ég að finna mér einhvern stað þar sem væri hugsað um mig afþví að ég gat það ekki lengur sjálf. Sumir hættu að svara í símann þegar ég hringdi, já ég var örugglega ekki auðveld í umgengni svona veik, mér var aldrei lofað auðveldu lífi og ég hef aldrei lofað mínum ættingjum að ég ætli bara að vera skemmtileg og auðveld, ég er fyrst og fremst manneskja en mér fannst ég ekki fá manneskjulega framkomu. Aðeins einn af mínum ættingjum sagði þessa setningu “ég trúi þér” þegar ég var að lýsa því hvernig mér liði og hvað ég væri veik, þessi þrjú orð björgðu mér langt. Enginn hringdi og spurði hvort ég þyrfti hjálp við að baða mig eða …….. æ til hvers að vera að rifja þetta upp? Maður verður sjálfur að reyna að gera sitt besta og vona að næsti maður geri það líka, svo er gott að festast ekki í biturleika yfir því sem einhverntíma skeði.
En þennan dag, 2.september, klæddi ég mig upp og snyrti mig vel áður en ég lagði af stað til geðlæknisins, á leiðinni í bílnum fann ég smávegis fyrir því að ég var að missa orkuna og svo á biðstofunni þá hrundi orkan alveg og fína konan sem lagði af stað var nú ekkert nema hrúgald þegar læknirinn opnaði hurðina og kallaði nafnið mitt. Ég komst við illan leik inn til hans og brotnaði niður og grét yfir ástandinu á mér. Hann sagðist sjá að mér hefði liðið betur þegar ég lagði af stað til hans, hann sagðist sjá það á klæðaburðinum og snyrtingunni, hann tók blóðþrýstinginn og sagði að hann væri í lagi, ég bað hann um að leggja mig inn, einhversstaðar, bara ekki á geðdeild, ég sagðist vilja rannsókn á því hvað væri að mér, hann sagði að það væri ekki hægt, ég sagðist vilja fá þverfaglegt teymi sem færi yfir mín mál og myndu síðan finna út hvað þyrfti að rannsaka, hann glotti. Ég borgaði fyrir tímann og staulaðist út við illan leik, ég stóð varla í fæturnar, ég hringdi tvö símtöl úr bílnum, annað var til að láta ná í mig og hitt símtalið hringdi ég með einhverja von í huga en sú von brást auðvitað, ég fékk yfir mig reiðilestur, hinu megin á línunni var manneskja sem þurfti líka hjálp sem ég gat ekki veitt.
Sonur minn kom og náði í mig, hann þurfti að bera mig úr mínum bíl yfir í sinn bíl, hann dróg mig síðan upp stigana í blokkinni og kom mér fyrir í sófanum, setti símann hjá mér og fór aftur í vinnuna. Ég hringdi í vinkonu mína og bað hana um að koma, ég sagði henni að ég myndi ekki geta opnað fyrir henni og að hún þyrfti að ná í lykilinn hjá syni mínum. Hún kom og pantaði strax sjúkrabíl og við fórum upp á bráðamóttöku.
Ég stóð
með Drottni háum tindi á
og horfði yfir lífs míns leið
hann lét mig hvert mitt fótspor sjá.
Þau blöstu við. Þá brosti hann
“Mitt barn”, hann mælti “sérðu þar,
ég gekk með þér og gætti þín,
í gleði og sorg ég hjá þér var”.
Þá sá ég fótspor frelsarans
svo fast við mig á langri braut.
Nú gat ég séð, hvað var mín vörn
í voða, freistni, raun og þraut.
En annað sá ég síðan brátt:
Á sumum stöðum blasti við,
að sporin voru aðeins ein.
– Gekk enginn þá við mína hlið ?
Hann las minn hug. Hann leit til mín
og lét mig horfa í augu sér:
“þá varstu sjúkur blessað barn,
þá bar ég þig á herðum mér.
(Þýð. Sigurbjörn Einarsson.)