Ég hringdi aftur á sjúkrabíl 7.september, þá var ég búin að vera meira og minna meðvitundarlaus yfir helgina en rankaði alltaf við mér þegar kvalirnar æstu sig upp. Bráðamóttaka, hverslags orð er það? Þeir tóku á móti mér á sama hátt og áður og ég lá og beið og beið eftir að einhver myndi nú vilja leggja mig einhversstaðar inn til almennilegrar rannsóknar. Loksins kom læknir og sagði að búið væri að panta fyrir mig magaspeglun og mér skilst að ég hafi farið í hana nokkrum dögum seinna en ég man ekkert eftir því og svo var búið að panta fyrir mig ristilspeglun sem ég átti að fá (og fékk) 27.október. Þar með var ég útskrifuð af bráðamóttöku og mátti fara heim. Ég stóð ekki í fæturnar og bað um hjólastól svo ég kæmist út, en mér var sagt að ég gæti vel gengið, ég var studd fram á biðstofu þar sem ég nældi mér í hjólastól til að komast út og aftur var ég komin heim jafn veik en nú var kannski eitthvað að fara að gerast, ég lifði endalaust í voninni.
Ég tók tvær efstu myndirnar í júní, þá var ástandið á mér þannig að ég bjóst ekki við að lifa mikið lengur. En svo hætti ég á lyfjunum og skipti um matarræði og ýmislegt fleira eins og ég hef rakið hér í blogginu og þriðju myndina tók ég í október eftir að hafa farið í Maður lifandi og keypt mér snyrtivörur án eiturefna, en ég er ennþá með krabbameinið þegar ég tók þessa þriðju mynd. Fjórðu myndina tók ég svo nokkrum dögum eftir aðgerðina eða 26.nóvember, þá laus við æxlið.