Í dag var fyrsti frídagurinn frá krabbameinslyfjunum. Mér líður ágætlega, er minna flökurt og ekki eins upptjúnnuð, sterarnir tjúnna mig upp.
Ég fékk Karitas-hjúkrunar heimsókn í dag og það var margt fróðlegt sem ég lærði um lyfin. Það eru víst ekki allir sem höndla sterana en þeir eru gefnir til að minnka aukaverkanir af krabbameinslyfjunum. Sterarnir virka mismunandi á fólk og sumir einfaldlega þola þá ekki og þá verður að reyna aðrar aðferðir. Ég held að ég þoli þá ágætlega en hvort aðrir þoli mig á sterunum, já það er annað mál, ég er voða glöð á þeim og framkvæmi hluti mjög hratt, þarf lítið að hugsa áður en ég framkvæmi, semsagt mjög hvatvís og þarf nánast ekkert að sofa. Ég fæ sterana í æðainnhellingunni og svo í þrjá daga á eftir en þeir eru í líkamanum talsvert lengur. Eftir að ég fékk fyrstu æðainnheillinguna þá langaði mig mikið í sígarettu og svo langaði mig líka til að fá mér í glas, helst langaði mig í captain morgan í kók, þetta var mjög sterk löngun sem mér fannst alls ekki viðeigandi að fá við þessar aðstæður en núna veit ég að þetta eru eðlileg viðbrögð og það eru sterarnir sem framkalla þetta. Sem betur fer þá er ég ekki veik fyrir víni, allavega ekki í dag, ég hélt reyndar einu sinni að ég væri alki en ég veit betur núna. Mér skilst að alkhólistar ráði illa við sterana og séu í fallhættu ef þeir þurfa að nota þá.
Ég ræddi við Karitas um hvort það væri ráðlegt að ég fengi mér þriggja mánaða kort í ræktinni, þá væri ég fljótari að hreinsa lyfin úr blóðinu með hreyfingu, hún réði mér frá því og sagði að ég fengi sjúkraþjálfun uppá spítala sem væri fyrir krabbameinssjúklinga í vernduðu umhverfi, eins gott að ég var ekki búin að kaupa kortið í allri minni hvatvísi.
Þessi dagur var alveg yndislegur og kvöldið líka, engin reiði og ekkert grátkast og ekkert ofsagleðikast og svo var ég með matarboð í kvöld og ég réði við það. Karitas sagði mér í dag að þeir sem væru greindir með geðhvörf gætu lent í alvarlegum geðsveiflum, minn geðlæknirinn var auðvitað búinn að greina mig með geðhvörf en ég lenti ekki í alvarlegri sveiflu og í dag á fyrsta lyfjafrídeginum þá finn ég að ég er akkúrat ég sjálf, engin sveifla, hvorki upp né niður, bara eðlileg gleði yfir góðum degi.