“pís of keik”

Jæja, loksins losnar um málbeinið en samt ekki, ég er nánast alveg raddlaus, búin að vera með hálsbólgu og kvef og hitavellu síðustu daga. Ég hef farið mjög vel með mig eins og mér er fyrirlagt en maður losnar líklega ekki við umgangspestir þótt maður sé að vefja sig inn í bómull. Það er mikil umferð hingað inn á síðuna og ég er ánægð með það. Einhver sagði við mig að ef ég væri að kvarta undan læknum og heilbrigðiskerfi á netinu að þá ætti ég á hættu að fá allt kerfið upp á móti mér, það er allt í lagi, ég kvarta þá bara líka yfir því á netinu, ég þjáist ekki af meðvirkni. Ég spái mikið í það hvað hafi orðið til þess að ég byrjaði að finna fyrir bættri heilsu. Líklega eru það margir þættir sem rötuðu saman en bara það, að hafa þorað að fara gegn ráðum læknanna, og hætta á geðlyfjunum, held ég að hafi jafnvel gert gæfumuninn. Ég tel ekki miklar líkur á að ég hefði lifað af aðgerðina ef ég hefði verið tekin inn í hana eins veik og ég var síðasta vor. Núna er ég bara með smá gigt og meira segja mikið minni gigt en áður, allar hinar greiningarnar voru þvæla, já ég fullyrði það.

Ég hringdi uppá spítala í gær, ég var búin að skrifa niður lista um ýmis óþægindi og vesen sem ég þurfti að ræða, í möppunni minni eru leiðbeiningar um hvenær þörf er á að hringja og ræða málin og ég var komin með nokkur atriði svo ég ákvað að hætta að leika einhvern töffara og hringdi. Það var gott að fá þessi mál á hreint og ræða smávegis um aukaverkanirnar, engin þörf var á að grípa til neinna aðgerða en ég fékk að vita að krampar sem ég hef verið að fá í nýrun eru ekki í lagi og það verður eitthvað tékkað betur á þeim. Svo fékk ég auðvitað að heyra að þessi meðferð er ekki alltaf auðveld og þar sem ég var orðin mjög veik þegar ég fór í aðgerðina þá verður þetta kannski erfiðara fyrir mig.

En, mér er alveg sama hvað hver segir, þessi meðferð er “pís of keik” miðað við að liggja hérna heima fárveik í mörg ár og eiga ekkert eftir nema vonina. Það mætti bæta 50% við aukaverkanirnar, já jafnvel 2×50% og ég fer brosandi í gegnum þetta allt saman vegna þess að það er endir á þessu, en veikindin virtust vera endalaus og það var erfitt, hundhelvíti erfitt!

Fyrsta umferð er á enda og næsta umferð byrjar á morgun, það verður auðveldara að setjast í stólinn og láta tengja slönguna. Eftir þrjár vikur get ég sagt að ég sé búin með einn/fjórða og það styttist í utanlandsferðina