Ég er frekar hátt uppi á sterunum, óskaplega tilfinningarík og langar helst að faðma allan heiminn að mér, mikið finnst mér gott að þeir hafi þessi áhrif á mig, mér skilst að þeir geti virkað alveg omvent og ég þarf nú ekki á því að halda að standa í illdeilum við fólk.
En lyfjagjöfin í gær gekk erfiðlega og ákveðið var að leggja inn beiðni fyrir lyfjabrunni sem verður græddur í bringuna og ætti bæði að auðvelda mér og þeim sem tengja slönguna. Þá verður mér bara stungið í samband við pokann, já það verður mikið betra! Ég fékk Karitas hjúkrun til mín bæði í gær og í dag og það var gott, þær eru yndislegar og sjá um allt sem ég þarf. Ég var soldið lítil í mér þegar ég kom heim eftir lyfjagjöfina svo það var gott að fá að tala um hvað lyfjagjöfin var erfið og gráta soldið. Svo í gærkvöldi var ég strax orðin mikið betri enda búin að moka út, já það borgar sig ekkert að vera að bíta á jaxlinn endalaust. Mér finnst svo gott að vera ég sjálf, manneskjan ég, tilfinningaveran ég, elsku ég.
=====================================
Ég var ekki alveg búin með frásögnina til enda, tímabilið 7.september til 27.október, frá því að ég var útskrifuð (hent út) af bráðamóttökunni og þar til ég var greind með krabbameinið. Sumir dagar voru bara fínir á meðan aðrir dagar voru mjög erfiðir, ég var illa haldin af síþreytu og svaf mikið og var langt inní þokumóðu og svo fann ég oft þegar sló útí fyrir mér. Ég mætti í tíma hjá geðlækninum mínum 4.október og það var bara venjulegur tími, ég tók mitt þunglyndispróf og skoraði hátt en það var svo sem ekkert sem hann kippti sér upp við. Ég hafði fengið sent bréf frá tryggingastofnun með grænu lyfjaskírteini um að ég væri komin með einhvern afslátt af enn einu geðlyfinu, Cymbalta, skýrteinið gildir til 9.ágúst 2013, ég spurði geðlækninn minn afhverju hann hefði sótt um þetta lyf fyrir mig, ég sagðist vera hætt á öllum geðlyfjum og ætlaði ekki að prufa neitt nýtt, hann sagði að þá væri þetta bara einhver mistök hjá sér. Ég borgaði og hef ekki mætt hjá honum aftur eftir þetta viðtal. Ég var hjá þessum lækni í 7 ár og tel að hann hafi gert mér meira ógagn en gagn. Hver einasta mínúta í mínu lífi er jafn dýrmæt og mínúturnar í hans lífi en hann tafði fyrir bata mínum, kannski ekki alveg viljandi en ég velti því fyrir mér hvort hann hafi verið eitthvað meðvitundarlaus í þessi sjö ár. Ef saga mín er skoðuð aftur til unglingsára þá hef ég verið forkur dugleg, útivinnandi og heimavinnandi, alið upp þrjá spræka syni, átt fallegt heimili, verið mikil handavinnukona og er á kafi í áhugamálunum mínum …. en svo veiktist ég …..
27.október var ég svo ristilspegluð og fékk strax að vita að það væri stórt æxli sem þeir þeir kæmust ekki framhjá. Þar með fékk ég að vita að margra ára magakvalir voru ekki bara kvíði og það var ekki hægt að lækna þessar kvalir með verkjalyfjum eða magalyfjum eða róandi lyfjum og því síður með þunglyndislyfjum.
Jæja, þá er ég búin að rifja þetta allt saman upp en samt er ýmislegt sem situr í mér þrátt fyrir að mér hafi tekist að hreinsa út alveg ótrúlega mikið. Ég er í mikilli vinnu með sjálfa mig og það er bara gott. Mér finnst gott að vita núna afhverju ég var svona eins og ég var í öll þessi ár, ég er líklega búin að vera með nonstop krabbamein í 10 til 12 ár og það hlýtur að vera talsvert álag á líkamann. Ég er bara svo heppin að vera með þokklega góða geðheilsu og það er líklega þessvegna sem mér tókst að komast lifandi í gegnum þetta allt saman ….. en ég viðurkenni að í restina var ég eiginlega orðin talsvert geðveik yfir geðlækninum og sem betur fer ákvað ég að ganga gegn öllum hans ráðum!