Ég velti stundum fyrir mér í hlutverkunum mínum í lífinu. Síðustu vikur og mánuði hef ég verið að endurskoða og endurmeta sjálfa mig á svo margan hátt.
Ég lærði skemmtilega tækni til að kafa svona inn á við og það hefur gagnast mér vel. Ég bjó til smá mynd til að gefa ykkur hugmynd um hvernig ég vinn þetta, ég teikna upp hring á blað og byrja svo að teikna upp hlutverkin mín í lífinu og svo er ég sjálf í miðjunni. Og svo byrjum við að tala saman, ég og hlutverkin mín í lífinu. En það þarf bara að vera einn hringur og svo puntur í miðjunni, mandala, þið ákveðið alveg sjálf hvernig innviður mandölunnar á að vera. Sum hlutverkin ættu líka að fá meira pláss en önnur, þessi mynd sem ég bjó til er bara svona til að fá hugmyndina.
Svo er það vinnan með hlutverkin, til dæmis:
Veika konan og Ég rökræðum fram og til baka um hvort við hefðum átt að gera eitthvað öðruvísi og líka hvernig okkur líkar hvorri við aðra. Mér líkar ekkert sérlega vel við návist Hennar en Ég verð að sætta Mig við að Hún er hérna og ef Ég ætla að losna við Hana þá þarf Ég að hugsa vel um Hana. Veiku konunni hefur heldur alls ekki alltaf líkað vel við Mig, Henni fannst Ég vera afskiptlaus lengi vel, eiginlega bara truntuleg. Hún er sáttari við Mig eftir að Ég fann uppá ýmsum brellum til að láta Henni líða betur, t.d. daginn sem Ég hætti að reykja og daginn sem Ég ákvað að hætta að nota sykur og daginn sem Ég ákvað að hætta að nota geðlyf og daginn sem Ég kvaddi geðlækninn endanlega, á svona dögum byrjaði líf Veiku Konunnar að skána og þá varð Ég ánægðaðri og Ég hélt áfram að velta við fleiri steinum afþví að Ég var komin með þá flugu í hausinn að með því að hlúa svona vel að Veiku Konunni þá tækist Mér kannski að lækna Hana. Vonin styrkti Mig og hugsunin um að “Veika Konan” yrði “Læknaða Konan” fyllti Mig eldmóði.
Svona vinna tekur langan tíma og þarf mikla yfirlegu og þolinmæði og það er best að fara sér hægt, það er líka hægt að fara marga hringi, ég er líklega í þriðju yfirferðinni minni í gegnum hringina og finn að ég næ alltaf betri árangri. Í fyrstu yfirferðinni tókst mér að leiðrétta hugsun sem ég hafði myndað mér á unglingsaldri þegar mér tókst, af eigin rammleik, að forða mér úr mjög skaðlegum aðstæðum. Ég horfði alltaf til baka til þessa atburðar að ég hefði gert eitthvað af mér, ég skammaðist mín fyrir sjálfa mig að hafa flúið úr þessum aðstæðum en eftir að hafa farið með þetta mál í gegnum mandöluna mína þá sá ég sjálfa mig stækka og verða sigurvegara, sem ég var og er, ég flúði aldrei, ég forðaði mér úr afar skaðlegum aðstæðum.
Eftir að Ég og Unglingurinn fórum saman í gegnum þessa vinnu þá leiðréttust hin hlutverkin mín smá saman líka því að þetta hafði litað lífið mitt talsvert.