Ég er að lesa bókina Dagbók Rokkstjörnu, þrjú mögnuð ár í lífi fallins flugstjóra. Atli Thoroddsen skrifaði blogg síðustu þrjú árin sem hann lifði. Ítrekuð læknamistök urðu þessum manni endanlega að falli.
Ég staldra við þar sem hann telur upp lykilmenn í lífi sínu, fjölskylduna sína og vini og lækninn sem gerði allt í sínu valdi til að halda í honum lífinu ….. og svo segir hann frá vini sínum, traustasta vini sem hægt var að hugsa sér, á tímabili lá hann milli heims og helju á spítala, nú hefur dæmið snúist við ….
Ég er svo heppin, ég á nefnilega svona vini, trausta vini sem telja í mig kjark á svona dögum eins og í dag, já sumir dagar eru einhvernvegin dæmdir til að vera verri en aðrir. Þá er svo gott að eiga góða að … … ein býr í Svíþjóð og önnur í Tennessee og ein í Reykjavík og ein á Höfn, gott samband bjargar mér núna.
=======================
Núna er ég komin með réttu græjurnar, framvegis verður hægt að stinga mér í samband við lyfjapokana, lyfjabrunnur er málið. Hann var græddur í mig á föstudaginn og ég hef verið smá handlama en það er allt saman að jafna sig. Og svo er næsta innhelling á fimmtudag, það verður sú þriðja. Ég rakst á blogg hjá konu sem hafði farið í gegnum þetta sama og ég, athyglivert að hún hafði líka fengið tilfinningu fyrir því að vera fangi inn í sjálfri sér í þessu lyfjaástandi. Ég veit að ég er ekki ein, á þriggja vikna fresti dragnast ég inn á deildina þar sem pokarnir bíða mín og það er fullt af öðru fólki með svona poka eins og mína poka. Þetta er ferðalag.
Cheryl, vinkona mín, sendi mér þetta lag,
við erum strax byrjaðar að dansa og syngja og horfa til baka
Looking back it was easy, easy, easy
It was easy
Looking back it was easy