Að kvöldi hvers dags ….

Að kvöldi hvers dags ….

Fyrir mörgum árum bauð vinkona mín mér með sér á stóran fund sem haldin var í Laugardagshöll, þetta var á þeim tíma sem ég var að feta mín fyrstu spor innan Alanon og á þessum fundi var AA og Alanon fólk samankomið. Andyrið í Laugardagshöllinni var fullt af brosandi fólki sem faðmaðist og kysstist í mikilli einlægni. Ég átti fullt í fangi með að týna ekki vinkonu minni sem hvarf inn í hvern brosandi faðminn á fætur öðrum en loks sleit hún sig lausa og teymdi mig að langborði þar sem voru litlir bæklingar og blöð og þar keypti hún skrautskrifaða bæn og týndi svo saman nokkra bæklinga og blöð og rétti mér “gjörðu svo vel Maddý mín, þetta mun koma sér vel fyrir þig”. Ég keypti fallegan ramma utan um bænina og hef haft hana alla tíð síðan við rúmið mitt og svo er lítill miði sem liggur alltaf í náttborðinu mínu og ég gríp stundum og les til að minna mig á …..

10.sporið

A. Vertu stöðugt á verði gagnvart eigingirni, óheiðarleika, gremju og ótta.

B. Þegar þessar kenndir gera vart við sig, biðjum við Guð um að losa okkur við þær.

C. Við ræðum strax um þær við einhvern.

D. Við flýtum okkur að bæta fyrir, ef við höfum gert á hluta einhvers manns.

E. Síðan beinum við hugsun okkar að einhverju, sem við getum hjálpað.

Að kvöldi hvers dags

1. Hef ég verið gröm/gramur?

  • Út í hvað/hvern? Hvað gerði ég? Hvað var ég að verja?

2. Hef ég verið eigingjörn/gjarn?

  • Hvernig? Hvað var ég að verja?

3. Hef ég verið óheiðarleg/ur?

  • Hvernig? Hvað var ég að fela?

4. Hef ég fundið fyrir ótta?

  • Hvenær? Hvað óttast ég að kæmi í ljós?
  • Hvað óttaðist ég að gerðist? Hvað óttast ég að missa?

5. Þarf ég að biðjast afsökunar á einhverju?

  • Hvað gerði ég? Hvað gerði ég ekki?

6. Hef ég þagað yfir einhverju sem ég ætti að ræða um við einhvern strax?

  • Hverju hef ég þagað yfir og hvers vegna?

7. Hef ég verið vingjarnlegur og ástúðleg/ur?

  • Hvernig og við hverja?

8. Hvað hefði ég getað gert betur?

9. Snérust hugsanir mínar að mestu um mig sjálfa/n?

  • Hvernig þá?

10 Var ég að hugsa um hvað ég gæti gert fyrir aðra?

  • Hvar, hvenær og fyrir hverja?

Seinna keypti ég AA bókina og ýmislegt fleira sem hefur gagnast mér vel og nú nýlega keypti mér ég bókina hans Guðna Gunnarssonar, Máttur Viljans, það er bók sem er tilvalin á náttborðið, gott að grípa í hana og ná sér jafnvel bara í eina setningu og kúra svo ofaní koddann með smá sálarfóður í kollinum.

===============================

Nú styttist í næstu 7 daga frílotuna, sem betur fer, þetta hefur ekki verið auðvelt en það er ýmislegt sem ég hef fengið í gegn sem auðveldar mér lífið. Núna fæ ég heimsendan mat þá daga sem ég er heima, það var orðin frekar stuttur í mér þráðurinn eftir að hafa lifað lengi á heitum samlokum en þegar ógleðin gleypir mann alveg þá er maður alls ekki tilbúin til að úthugsa eitthvað til að versla inn og elda. Yndisleg vinkona mín bauðst til að koma með heita súpu til mín einn daginn og gladdi það mig inn að hjartarótum en svo ræddi ég þessi mál við Karitas konur og þær voru fljótar að finna framtíðarlausn og núna kemur sendill frá Veislunni með mjög góðan mat til mín í hádeginu. Það er með þetta eins og fleira, ég hefði þurft að fá þessa aðhlynningu fyrir löngu síðan og mér finnst það vera skrýtið að enginn sem kom að mínum málum kæmi ekki auga á það að ég var ekki fær um að næra sjálfa mig almennilega. Ég vil taka það enn einu sinni fram að þegar ég hætti loks á öllum geðlyfjunum, þá kom orkan og vitið til mín aftur.

Svo hefst lyfjalota númer fjögur þann 17.febrúar og það styttist í sumarið ….