Í dag er ég komin í 7 daga lyfjafrí og þar með er ég hálfnuð í meðferðinni. Læknirinn sá að þetta var orðið of erfitt fyrir mig og veikti pokablönduna og fækkaði pillunum og það skilaði sér ágætlega, ég var bara orðin léleg og kraftlaus áður en þessi meðferð byrjaði og það reiknar auðvitað enginn með því að ég hressist á meðan ég er í þessu, ég þarf á öllu mínu að halda til að komast í gegnum daginn og ég bý uppá þriðju hæð og er nánast föst þar nema þá daga sem ég er keyrð út í Kópavog en nú er á döfinni að ég leggist þar inn í sólarhringsvistun svona til að hressa mig eitthvað upp. Ég lifi í voninni og bið til Guðs að ég eigi eftir að upplifa lyfjalaust líf, ég bið ekki um neitt meira en það.
Öryrkjabandalag Íslands, velferðarráðuneytið, Rannsóknarsetur í fötlunarfræðum og Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála buðu til málþings síðasta föstudag á Grand hóteli og ég mætti og tókst næstum að vera allan tímann. Á málþinginu var fjallað um niðurstöður nýrrar rannsóknar á aðstæðum og afkomu öryrkja á Íslandi, en í rannsókninni var lögð áhersla á að fá fram sjónarhorn og reynslu fólks á örorkubótum. Rannsóknin var unnin með styrk frá Evrópuári gegn fátækt og félagslegri einangrun. Ég get sagt frá minni reynslu að það er sorgleg fjárhagsstaða sem bíður þeirra sem missa heilsuna í þessu ríka og hamingjusama samfélagi. Það er eins og að það sé bara alveg sjálfsagt samasem=merki á milli þess að missa heilsuna og missa allt sem maður á, ætti það ekki að vera á hinn veginn? Við getum öll lent í þessari stöðu og ættum því að huga betur að þessum málum. Ég hvet fólk til að lesa fyrstu drög skýrslunnar sem hægt er að finna HÉRNA