Fordómar

Í tilefni alþjóða geðheilbrigðisdagsins sem er í dag, 10.október langar mig að benda á fordóma heilbrigðis- og velferðarkerfisins gagnvart geðsjúkdómum.

Það er a.m.k. mín upplifun og ég skal útskýra það hversvegna ég upplifi þessa fordóma.

Í nóvember árið 2010 var ég mjög veik lögð inná skurðdeild Lsh og skorin upp vegna ristilkrabbameins, aðgerðin gekk vel og ég fékk góða þjónustu, allir voru yndislegir við mig í alla staði og rúmið sem ég lá í var dásamlega mjúkt og það fór vel um mig.

Fram að þessum tíma hafði ég lengi verið greind með þunglyndi og ekki þótt ástæða til að rannsaka mig mikið vegna líkamlegra einkenna sem ég var búin að kvarta yfir frá því á árinu 2006, kviðverkjum og öðrum líkamlegum verkjum var sópað undir þunglyndisgreininguna og mér boðin róandi lyf sem átti að róa niður verkina og svo var bætt við fleiri geðgreiningum og geðlyfjum eftir því sem ég veiktist meira.

Ég hafði sótt um ýmsa þjónustu hjá mínu sveitarfélagi eins og að fá heimsendan mat og öryggishnapp og aðstoð við að sinna mínum grunnþörfum sem ég gat ekki lengur sinnt en ég fékk neitun á þetta allt saman en náði því loksins í gegn að fá hjálp við heimilisþrifin með því skilyrði að ég hjálpaði til við þrifin sem ég gat ekki og stóð ég stundum í stappi við fólkið sem kom að þrífa hjá mér.

Eftir að ég fékk rétta greiningu þá fékk ég alla þjónustu sem ég hafði beðið um, ég fékk heimsendan mat og það var mikill munur, ég fékk akstur en ég hafði ekki getað keyrt bílinn minn í langan tíma og notaði leigubíla, ég fékk öryggishnapp sem veitti mér betri líðan því ég var alltaf ein og í litlu sem engu sambandi við fólk þegar þarna var komið. Mér fannst allt í einu að samfélagið vildi hjálpa mér en í langan tíma hafði ég haft það á tilfinningunni að ég ætti ekkert gott skilið. Frá árinu 2006, þegar ég byrjaði að kvarta yfir líkamlegum sjúkdómi þá átti ég að ganga hann af mér og moka í mig ótrúlegu magni af geðlyfjum sem ég veit í dag að var ekki í neinum tengslum við þann sjúkdóm sem að mér var.

Ég byrjaði í krabbameins-lyfjameðferð í desember 2010 og í mars veiktist ég talsvert mikið og var lögð inná líknardeild í Kópavogi, þar fékk ég dásamlega þjónustu og rúmið var svo mjúkt og gott og starfsfólkið var svo yndislegt, þetta umhverfi fór vel með mig en ég get samt alveg sagt að þessi staður í tilverunni er ekki neinn óskastaður en þegar maður er orðinn svona mikið veikur þá er erfitt að liggja einn og yfirgefinn heima hjá sér en það hafði farið mjög illa með mig hversu ein ég var í gegnum allt þetta ferli en það var bara þannig að á meðan ég hafði þunglyndisgreiningu þá átti ég lítinn rétt, ég hafði reyndar heimageðþjónustu sem hringdi í mig einu sinni í viku, nenni ekki að segja meira frá því núna og tel að það mætti spara heilmikla pening með því að leggja þá óþjónustu niður! En ég ætla að skrifa meira um það batterí seinna.

Í apríl var ég komin á Grensás, þar var yndislegt fólk allt í kringum mig, allir tilbúnir til að styðja mig í því að ná heilsu. Lyfjameðferðin hélt áfram og var erfið, krabbameinslæknirinn sagði að ég hefði verið orðin svo mikið veik þegar krabbameinið uppgötvaðist, það útskýrði hvað ég átti erfitt með að komast í gegnum þetta.

Í maí var ég komin inná geðdeild og þar lá ég í þúsund molum restina af lyfjameðferðinni, þá var ég ekki lengur í mjúku rúmi og það var meiri harka í starfsfólkinu, ekki beint það sem ég þurfti á þessum tíma en mér tókst að harka út einbýli eftir talsvert suð og tuð en ég fékk ekki betra rúm.

Daginn eftir að ég fékk rétta greiningu þá gjörbreyttist öll framkoma og aðbúnaður en ég var sama veika konan og áður! Segir það eitthvað? Höfðu læknarnir gert mistök þegar þeir greindu mig aftur og aftur með þunglyndi afþví að það stóð í sjúkraskýrslunni minni að ég ætti sögu um þunglyndi? Ég átti líka sögu um krabbamein.

Það sem fer illa í mig er að heilbrigðis- og velferðarkerfið kemst upp með að flokka fólk á sínum forsendum og meðhöndla það á fordómafullan hátt, það er mín reynsla.

Ég ræddi þetta löngu síðar við lækni, hann benti mér á að starfsfólk heilbrigðiskerfisins gæti verið fordómafullt. Hann sagði þetta eins og að hann væri að tala um veðrið, sem við getum ekki breytt.

En hvað getum við gert í sambandi við fordómana?

Pledge1Við getum lofað sjálfum okkur því að uppræta eigin fordóma með því að fræðast um geðsjúkdóma.

Í um það bil 80 ár hafa læknakandidatar undirritað eftirfarandi eiðstaf í bók sem varðveitt er af forseta Læknadeildar Háskóla Íslands:

* að beita kunnáttu minni með fullri alúð og samvizkusemi,

* að láta mér ávallt annt um sjúklinga mína án manngreinarálits,

* að gera mér far um að auka kunnáttu mína í læknafræðum,

* að kynna mér og halda vandlega öll lög og fyrirmæli er lúta að störfum lækna

Ég skora á lækna að lesa það sem þeir undirrituðu og vinna samkvæmt því.

tímabilx