Of kurteis

Skurðlæknirinn sem skar krabbameinsæxlið í burtu úr ristlinum sagði mér að ristillinn hefði nánast verið búinn að loka sér, svo agnalítið gat var eftir. Það hlaut að vera eitthvað mikið að því kvalirnar voru búnar að vera miklar og vara lengi, núna eru 40 mánuðir síðan ég veiktist alvarlega og vissi sjálf að það var eitthvað mikið að. Auðvitað er ég mjög ósátt við meðferð læknanna á mér en ég er líka hrædd og finnst erfið tilhugsunin um að kannski hafi meinið uppgötvast of seint.

Ég sé mest eftir að hafa verið svona kurteis þegar ég ræddi við læknana, auðvitað átti ég að öskra á þá! Þeir misþyrmdu mér og ég tók upp veskið og spurði hvað ég ætti að borga mikið og svo þakkaði ég líka kurteislega fyrir mig áður en ég gekk út með öll mín vandamál og sáru verki.

HÉRNA rakst ég á smá lesefni sem ég vil hafa í þessu bloggi, fyrir þá sem lesa núna eða einhverntíma síðar, fyrir þá sem vilja vita hvað gerðist, fyrir þá sem á eftir mér koma með verki í kvið og er troðið inn á geðdeild og boðið róandi lyf og sagt að fara í göngutúra.

Ef hægðirnar eru mjög harðar þarf óhemju þrýsting til að losna við þær. Hinn þekkti læknir dr. Denis Burkitt, sem rannsakað hefur áhrif trefja á mannslíkamann manna mest segir, að við slíkar aðstæður myndist þrýstingur í kviðarholinu sem geti orðið milli 200 og 400 mm á kvikasilfurssúlu (ca. 0,25-0,5 kgcm2). Vitað er að þessi þrýstingur flyst til bláæðanna í fótunum og æðanna við endaþarminn við slíkar aðstæður. Við langvarandi hægðatregðu bila þessar æðar smám saman og fara að þenjast út. Lokur í æðunum, sem varna því að blóðið renni í öfuga átt, bila ein af annarri og hnútar fara að myndast.
—-
Auðvitað dugði lítið fyrir mig í restina að fylla mig af trefjum og þamba vatn, ég var einfaldlega orðin “full of shit” sem komst nánast hvergi út – ég veit það núna afhverju ég var öll orðin útsteypt í kýlum, húðlæknirinn vissi ekki útafhverju þessi kýli voru á mér en hún skaffaði mér samt krem við þeim og ég veit það núna afhverju ég var öskrandi af kvölum í kviðnum en ég hef ekki hugmynd um afhverju mér var boðið verkjalyf og magalyf og róandi lyf og geðlyf og ótal mörg önnur lyf í mörg ár án þess að ég væri skoðuð betur! ÉG VIL GJARNAN FÁ ÚTSKÝRINGU Á ÞVÍ…..!

===================================
Ég fæ að leggjast inn á líknardeildina á mánudaginn.