Núna er ég umföðmuð af yndislegu fólki hérna á líknardeildinni í Kópavoginum. Ég er búin að vera talsvert veik undanfarið og þrátt fyrir að vera komin í 7 daga lyfjafrí þá hresstist ég ekki. Svo þegar ég innritaðist hér þá fékk ég læknisskoðun og þá kom í ljós lítið mein sem var orðið ljótt og komin sýking í það og nú er ég komin á viðeigandi lyf sem vonandi vinna hratt og vel á þessu. Ónæmiskerfið mitt er orðið lélegt eftir margra ára veikindi og þolir illa allt auka álag.
Núna þarf ég næði til að heila sjálfa mig og hér í Kópavoginum fæ ég bæði andlega og líkamlega næringu. Ég hef umvafið sjálfa mig inn í frið og kærleika og það er það eina sem kemst að mér núna og líka það eina sem ég sendi frá mér. Ég þurfti að loka ýmsum gáttum til að öðlast nauðsynlegan frið og ró, ég gerði það eina sem eftir var í stöðunni, ég lokaði. Ég er ekki ósátt eða reið, það er engin tími fyrir slíkt núna, ég er umvafin hvítu englaljósi og eins og ein vinkona mín orðaði svo vel, ég er stödd í enskum blómagarði.
Nærveran hérna finnst mér góð, ég er ennþá hálf vængbrotin eftir að hafa legið svona lengi ein og veik heima hjá mér, stundum bæði svöng og óhrein, það þurfa allir einhverja nærveru, ekki síst þeir sem eru veikir. Mér fannst það óyfirstíganlegt vandamál þegar ég stóð frammi fyrir því núna að þurfa jafnvel að skilja litla græna fuglinn minn eftir einan heima á meðan ég færi hingað í Kópavoginn, þótt hann sé grænn þá er hann ekki með tilfinningar eins og græn pottaplanta og linnti ég því ekki látunum fyrr en mér tókst að finna yndislega konu sem var tilbúin að hafa hann fyrir mig, hún meira segja kom og sótti hann til mín, ég er mjög þakklát því að ég var farin að halda að ég þyrfti að afþakka innlögnina.
Það má svo sem vera
að vonin ein
hálf veikburða sofni í dá.
Finnst vera eitthvað
sem íþyngir mér
en svo erfitt í fjarlægð að sjá.
Það gilda má einu
hvort ég áleiðis fer
eða staldra hér ögn við og bíð.
Þótt tómið og treginn
mig teymi út á veginn
ég veit ég hef alla tíð…
verið umvafin englum
sem að vaka hjá
meðan mannshjörtun hrærast
þá er huggun þar að fá.
Þó að vitskert sé veröld
þá um veginn geng ég bein
því ég er umvafin englum
aldrei ein – aldrei ein.
Svo endalaus ótti
við allt sem er
og alls staðar óvini að sjá.
Veðrin svo válind
og víðáttan grimm,
ég vil fría mig skelfingu frá.
Í tíma og rúmi
töfraoðin mín
og tilbrigðin hljóma svo blíð.
Líst ekki að ljúga
mig langar að trúa
að ég hafi alla tíð…
verið umvafin englum
sem að vaka hjá
meðan mannshjörtun hrærast
þá er huggun þar að fá.
Þó að vitskert sé veröld
þá um veginn geng ég bein
því ég er umvafin englum
aldrei ein – aldrei ein.