Jæja, loksins get ég sagt að meðferðinni sé lokið, ég tók inn síðustu töflurnar síðasta mánudag og síðasta innhelling var fyrir hálfum mánuði. Nú er bara að bíða eftir að aukaverkanir lyfjanna minnki en það tekur einhvern tíma. Erfið aukaverkun er mikill kuldi og doði í fingrum og iljum og tám, þessvegna ætla ég ekki að skrifa mikið núna. Ég fékk erfitt kvíðakast sem heltók mig í of langan tíma, mér skilst að það sé ekki óalgengt að fólk sem tekst á við lífsógnandi sjúkdóma fái svona kvíðaköst.
Fyrsta eftirlit verður í júlí og ég ætla að vera bjartsýn.
Ég fann þetta myndbrot og vil hafa það með í blogginu mínu, ég er alltaf að safna saman ýmsu gagnlegu til að hafa hérna með til fróðleiks sem varðar okkur öll. Í síðasta viðtali við krabbameinslækninn minn sagði hún mér að mitt ristilkrabbamein hefði verið að malla í mér í 10 ár. Ég get sagt að fyrstu árin fann ég ekki fyrir því, það var þögult, en frá því í nóvember 2007 hef ég átt við mikil veikindi að stríða en þeir læknar sem ég leitaði til ákváðu án rannsókna að skilgreina mín veikindi sem þunglyndi og fleiri geðsjúkdóma og þessvegna kom þetta ekki í ljós fyrr en í október 2010.
Kveðjur til ykkar allra sem fylgist með mér hérna og takk fyrir allar kveðjurnar frá ykkur.