Í síðustu viku var ég sett í sneiðmyndatöku og röntgenmyndatöku og í morgun hitti ég krabbameinslækninn minn sem sagði mér þær góðu fréttir að lyfjameðferðin hefði tekist fullkomlega og ekkert óæskilegt að sjá á myndum nema bara að ég er dálítið bólgin á aðgerðarsvæðinu en það er alveg eðlilegt. Næst á dagskrá er að lyfjabrunnurinn verður fjarlægður úr bringunni og svo fer ég í endurhæfingu á Kristnesi sem er rétt við Akureyri.
Talsverðar aukaverkanir bættust við eftir að lyfjameðferðinni lauk, ég tók það mjög nærri mér í fyrstu þegar ég komst að því að þetta gæti plagað mig í einhvern X tíma og jafnvel lengur en svo tók ég mig á og ákvað að sættast við þetta allt saman og horfa bara á þá staðreynd að ég er á lífi og mig langar ekki að eyða meiri tíma í pirring og reiði og sorg. Ég missi mig samt stundum og blæs úr mér yfir því hvað hámenntaðir læknar gátu verið sofandi og dofnir og miklar rolur í mörg ár yfir mínum veikindum, mér finnst ég samt vera orðin talsvert rólegri núna. Ég er að eðlisfari geðgóð en líklega hefur dropinn holað steininn á þann hátt að í mér situr pirringur sem ég þarf að vinna með og losna við. Ég veit að mér mun takast það eins og annað.
Mér finnst yndislegt að vera loksins komin á þann stað að vera laus við krabbameinið eftir hafa burðast með það í systeminu í 12 ár, það er ekki alltaf dauðadómur að greinast með krabbamein. Núna hefst seinni hálfleikur í lífi mínu og það verður sko stuð, ég ætla svo sannarlega að verða eeeeldgömul og njóta þess í botn.
Takk fyrir allar yndislegu kveðjurnar, jákvæðar hugsanir og ekki síst allar bænirnar sem rötuðu svo greinilega á réttan stað.