Það er svo margt skemmtilegt að gerast núna, ég er þátttakandi í lífinu, ég er virk og ég nýt þess hverja einustu mínútu, ég tapaði mörgum árum í tóma steypu þannig að núna nota ég tímann vel til að lifa lífinu mínu. Hvernig var þetta aftur í textanum, “það er nógur tími til að hugsa um dauðann eftir dauðann, njóttu lífsins meðan kostur er” … já ég er á fullu að njóta lífsins og reyni eins vel og ég get að hafa gaman af því sem ég er að gera.
Síðustu vikuna í ágúst dvaldi ég með hóp af góðu fólki á Bergheimum í Grímsnesi, líknar og vinafélagið Bergmál á og rekur þar glæsilegt og vel búið orlofshús fyrir langveikt fólk. Þótt allir nema kannski starfsfólkið hafi mikla “reynslu” í farteskinu þá kom það svo sannarlega ekki í veg fyrir að hlátrasköllin lyftu þakinu upp öðru hvoru á þessu annars vel byggða húsi og á kvöldin fengum við alltaf einhverja spennandi heimsókn listafólks sem skemmti okkur með söng og fleiru en söngur er eitt aðalsmerki Bergmáls sem er skiljanlegt þar sem þetta byrjaði allt með kórstarfsemi. Saga þessa félags er stórmerkileg og vil ég benda á síðuna þeirra bergmal.is – ég er afar þakklát fyrir að fá þetta tækifæri til að komast aðeins í burtu en ég hef ekki ennþá komist í ferðina sem ég ætlaði að fara í vor svo þetta var bókstaflega vika aldarinnar fyrir mig! Allt starfsfólk gefur vinnu sína og ýmis fyrirtæki styrkja þessa starfsemi, svo má ekki gleyma að segja frá aðal dívunni, hún heitir Kolbrún Karlsdóttir og hún er stjórnarformaður Bergmáls og á meðan ég dvaldi þarna þá var hún fyrst á fætur og síðust til að fara að sofa, hún kyssti og knúsaði alla á hverjum morgni og sagði okkur sögur og söng fyrir okkur og ég hugsa að ef ég hefði rétt henni prjónana mína þá hefði hún prjónað fyrir mig, hún er yndisleg í alla staði og ég hugsaði svo oft að þarna væri rétt manneskja á réttum stað, hún kann og getur allt. Jæja, svo lengdist ferðin mín um tvær nætur en ég kom við hjá systur minni á heimleið og hún tók svo vel á móti mér að ég var nú bara að spá í að flytja lögheimilið til hennar! Þegar ég kom heim þá var ég komin með einhverja kvefpest og svo hafði ég líka smitast af einhverjum prjónavírus en á Bergheimum deildi ég herbergi með henni Völu handavinnukennara sem var að prjóna svo dásamlega vettlinga og auðvitað er ég komin á kaf í að prjóna vettlinga og það er ekkert smá gaman!
Loksins er heilsutetrið að skríða það mikið saman að ég treysti mér í Ljósið og í morgun byrjaði ég á efnilegu námskeiði með hópi af öðrum reynsluboltum, ég er bjartsýn á að þetta námskeið muni gera mér gott og ef ég vil þá er ýmislegt fleira í boði hjá þeim í Ljósinu sem ég get notfært mér, þar er t.d. mikil prjónavirkni
En ég byrjaði á öðru námskeiði í síðustu viku, það er 12 spora andlegt ferðalag sem mun standa yfir í vetur. Ég var byrjuð á þessu námskeiði fyrir ári síðan en svo fór það auðvitað út um þúfur þegar ég “tjónaðist” “upp um alla veggi.” En sem betur fer þá er þetta námskeið byrjað aftur núna og auðvitað mætti ég. Ég verð samt að taka mér eitthvað frí á meðan að ég skrepp norður á Kristnes í endurhæfingu en ég ræddi það við Karitas hjúkrun hvort ég ætti ekki bara að sleppa þessu Kristnesi, ég er svo áfjáð í að stimpla mig út úr þessu “sjúklingahlutverki” – en Karitas mælir sterklega með að ég fari norður og ég ætla að fara eftir öllum góðum ráðleggingum sem ég fæ.
Ég var mjög slæm af taugaverkjum eftir lyfjameðferðina og það stressaði mig talsvert hvort þetta myndi bara verða svona það sem eftir væri, ég var svo slæm að ég var að rumska allar nætur við þessa verki en svo fékk ég B12 sprautur og þá lagaðist þetta heilmikið. Ég er samt ennþá að kljást aðeins við þetta og veit ekki hvort þetta á eftir að lagast, þetta lagast alveg hjá sumum en ekki öllum. Mér voru boðin ýmis taugaverkjalyf en ég vil þau ekki ef ég get mögulega komist hjá því að nota þau. Ég veit um lyf sem ég veit að fer betur í mig heldur en Lyrica og önnur skyld lyf sem eru sköffuð við taugaverkjum, það heitir Low Dose Naltroxen, það fæst ekki hér á landi en ég get pantað mér það frá Skotlandi. Þetta lyf hefur gagnast MS fólki vel við sínum taugaverkjum. Ég er líka aðeins að bíða hvort þetta lyf verði fáanlegt hér á landi en Sverrir Bergmann, taugalæknir, hélt erindi fyrir MS fólk um þetta lyf og mér skilst að hann hafi í hyggju að beita sér eitthvað fyrir því að þetta lyf verði aðgengilegra hér á landi. Það er hægt að sjá fyrirlesturinn hans Sverris inná síðu MS félagsins.