Í kvöld er eitt ár liðið frá því að ég frekjaðist inná Landspítalann og lagðist þar upp í rúm. Ég hafði átt að mæta að morgni skurðardags þann 15.nóv en ég sætti mig ekki við það, vildi semsagt sofa nóttina á spítalanum og helst vildi ég fá kæruleysissprautuna áður en ég vaknaði en það fékk ég nú reyndar ekki en eftir miklar fortölur hafði ég það í gegn að fá að mæta seint þetta kvöld. Ég tók leigubíl og hann stoppaði fyrir utan aðalinnganginn og þegar hann var farinn þá uppgötvaði ég að búið var að loka aðalinnganginum svona seint að kvöldi og notast átti við innganginn “hinu megin” – það þýddi talsverða göngu fyrir mig með töskuna og ég sem stóð varla í fæturnar vegna máttleysis. Var þetta ekki dæmigert, í mörg ár var mér sagt að bati minn væri bara í mínum höndum, ég átti að vera dugleg að fara í gönguferðir því þá myndi mér batna af þessu djúpa þunglyndi, þarna stóð ég fyrir framan spítalann, loksins komin með rétta greiningu og átti að fá uppskurð og les þá þessi skilaboð á hurðinni, að ég eigi að fara í gönguferð. Einhvernvegin grenjaði ég mig úr sporunum og dró töskuna með mér hringinn í kringum þetta ægistóra hús og inn komst ég. Ég dó ekki, ég lifði þetta af en það mátti ekki tæpara standa, ég hafði vitað það í einhvern tíma að ég væri á förum án þess að vita hvað var að draga mig til dauða, enda er ég ekki læknislærð.
Fyrir stuttu síðan sagði læknir mér að eitt fyrsta einkenni ristilkrabbameins er þunglyndi, það hlýtur að setja þokkalega pressu á lækna að láta skanna þunglynda sjúklinga. Það eru alltaf að bætast fleiri ástæður á listann minn fyrir því að það hefði átt að senda mig í skönnun mörgum árum fyrr, en ég er líka að fá betri meðvitund og heilsu og þessvegna sé ég þetta betur og betur núna …. þótt ég sé ekki læknislærð.
Það er kannski ekki hægt að segja að það sé bara auðvelt að hafa öðlast heilsuna á ný, ég átti ekki orðið neitt líf fyrir ári síðan og á þessum 12 erfiðu mánuðum hef ég horfst í augu við ótal margt sem ég sá ekki fyrir þegar ég bað um betri heilsu og var bænheyrð. Ég upplifði líka margt ótrúlegt í sjálfu veikindaferlinu sem kom mér mjög á óvart, allt þetta hlýtur að móta mig á vissan hátt í dag, mér finnst gott að finna að í mér er að fæðast falleg hugsjón sem ég á eftir að finna út hvernig ég get notað. Ég lifi í fordómafullu samfélagi þar sem veikindi, fyrrverandi veikindi og hækkaður aldur er ekki talinn kostur þar sem maður sækir um vinnu en ég er samt ákveðin í að einhversstaðar er vinna fyrir mig, 20% til að byrja með á meðan ég er að snúa mér í gang. Ég þarf líka að slá niður mína eigin fordóma á samfélaginu og þá á ég meiri möguleika. Ég er semsagt að smíða mér nýtt líf eftir margra ára veikindi, 12 ára krabbameinsferli mínum er nú loks lokið, einn dag í einu.
Ég ætlast ekki lengur til að lífið sé einhvernvegin öðruvísi en það er, ég er þakklát fyrir daginn í dag, meira þarf ég ekki. Ég upplifði mikla höfnun í gegnum allt þetta ferli, sumt skil ég en annað ekki, mér er auðvitað ekki ætlað að skilja alla hluti og ég þrífst alveg ágætlega án þess að reyna að kafa eitthvað ofan í það afhverju hitt og þetta er eins og það er, ég breyti engu nema sjálfri mér og ég er ánægð með að geta það. Annars er ég alveg ágætlega ánægð með mig eins og ég er, ég væri pottþétt ekki komin þetta langt í lífinu nema afþví að ég er eins og ég er.
Ég fékk ósk mína uppfyllta og öðlaðist heilsu á ný og nú ætla ég að óska mér aftur; Eftir 12 mánuði þá vil ég vera komin í 100% starf, ég vil vera í góðum félagsskap, ég vil vera með í lífinu, ég vil eiga vini sem meta mig eins og ég er og …… Ég ætla að orða þetta öðruvísi, eftir 12 mánuði þá verð ég í 100% starfi og allt hitt líka …….
Looking back it was easy, easy, easy
It was easy
Looking back it was easy